Ríkisútvarpið hf.

Mánudaginn 23. janúar 2006, kl. 22:43:20 (3586)


132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[22:43]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það hefur komið fram hér í umræðunni að sitt sýnist hverjum um það hvaða form sé heppilegast að hafa á rekstri Ríkisútvarpsins og yfir það fór ég í ræðu minni áðan. Þannig hafa vinstri grænir talið eðlilegt að það sé það form sem er á Ríkisútvarpinu núna, þ.e. að þetta sé ríkisstofnun, sé rekin sem slík og fært fyrir því sín rök. Sjálfstæðismenn telja best að hafa hlutafélagaformið og þeir hafa út af fyrir sig fært fyrir því rök sem þekkt eru, þ.e. að lög um hlutafélög séu skýr, þetta sé þaulreynt fyrirkomulag o.s.frv.

Við höfum talað fyrir því eins og Framsóknarflokkurinn gerði til skamms tíma að þetta væri sjálfseignarfyrirkomulag. Eins og ég sagði áðan er ástæðan sú að það gefur þessari stofnun það sjálfstæði sem við teljum að hún þurfi. Það form er einkaréttarlegs eðlis en stofnanir eins og Ríkisútvarpið sem hafa beinan aðgang að opinberu fé eru ekki rekin fyrir tekjur sem þau afla sér á markaði eins og sumar stofnanir og fyrirtæki eru, t.d. orkufyrirtækin, þau lúta svolítið öðrum lögmálum. Þess vegna hefur slíkum stofnunum gjarnan verið valið þetta form, sjálfseignarstofnunarformið. Ég nefndi hér háskólastarfsemi og hjúkrunarheimilin og það væri hægt að nefna fleiri slíkar stofnanir sem eru þess eðlis að þær gegna almannaþjónustuhlutverki, þær hafa aðgang að opinberu fé en þær þurfa ákveðið sjálfstæði og ákveðið svigrúm sem fylgir sjálfseignarstofnunarfyrirkomulaginu.

Þess vegna höfum talað fyrir því í Samfylkingunni. Við höfum hins vegar opnað á það að við værum tilbúin til viðræðna um hlutafélagaformið. En við höfum bara fengið þannig svör hér í þinginu (Forseti hringir.) að við höfum auðvitað lært að það á aldrei að opna nokkra gátt gagnvart stjórnarliðinu.