Skipun nefndar um stöðu verknáms

Þriðjudaginn 24. janúar 2006, kl. 13:40:36 (3628)


132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Skipun nefndar um stöðu verknáms.

[13:40]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Það er í sjálfu sér fagnaðarefni að það skuli vera búið að skipa nefnd um eflingu starfsnáms. Um fátt hefur verið meira rætt við afgreiðslu fjárlaga í þinginu en fjárskort til skólanna og sérstaklega til starfsmenntabrautanna. Það hefði að mínu viti verið réttara af hæstv. ráðherra að hafa samráð við stjórnarandstöðuna um skipan þessarar nefndar. En ég vil undirstrika að þetta er ekki fyrsta nefndin sem er skipuð um eflingu starfsnáms.

Það sem á hefur skort er pólitískur vilji af hálfu stjórnvalda til að efla starfsnámið og setja í það fjármagn. Um það hefur þetta mál snúist. Þeir skólar sem hafa verið með starfsnám á sínum vegum hafa átt mjög erfitt uppdráttar vegna þess að starfsnámið hefur átt undir högg að sækja, sérstaklega hjá stjórnvöldum. Ég held að það sé meginmálið. Það er gott að þessi nefnd skili áliti en peninga og pólitískan vilja til að efla starfsnámið hefur skort. Ég veit ekki hvort þessi nefnd hæstv. ráðherra breytir nokkru þar um. Geti þessi nefnd dregið það, pólitíska viljann eða peningana, út úr ríkiskerfinu til að efla starfsnámið þá er það gott og vel. Sá ætti kannski að vera megintilgangur þessarar nefndar, herra forseti.