Fréttaþátturinn Auðlind

Miðvikudaginn 25. janúar 2006, kl. 12:53:10 (3718)


132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Fréttaþátturinn Auðlind.

383. mál
[12:53]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég get tekið undir að fréttaþátturinn Auðlind, sem var fréttaþáttur um sjávarútvegsmál, var afar merkilegur og ég hlustaði á hann, m.a. þegar hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson kom að dagskrárgerð í þeim þætti. En ég verð að segja hvað varðar þessa fyrirspurn þá finnst mér hún með öllu alveg ótrúleg. Hvað á hv. þingmaður með það að koma hingað inn á hið háa Alþingi og óska svara menntamálaráðherra um einstaka þætti í Ríkisútvarpinu sem hann hefur sjálfur sérstakan áhuga á? Af hverju hringir hv. þingmaður ekki í útvarpsstjóra Pál Magnússon og spyr hann þessarar spurningar en ekki menntamálaráðherra? Mér finnst þetta dálítið sérstakt að fyrirspurn sem þessi komi frá þingmanni Frjálslynda flokksins, flokks sem hefur verið að agnúast út í það að stjórnmálamenn hafi bein afskipti af Ríkisútvarpinu og þeirri dagskrárgerð sem þar fer fram en varpar síðan fram fyrirspurn til menntamálaráðherra sem felur það í sér að (Forseti hringir.) stjórnmálamaðurinn hæstv. menntamálaráðherra hlutist (Forseti hringir.) til um einstaka dagskrárliði innan Ríkisútvarpsins. Þetta er furðuleg fyrirspurn.