Framsaga iðnaðarráðherra fyrir auðlindafrumvarpinu

Fimmtudaginn 26. janúar 2006, kl. 16:45:33 (3838)


132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Um fundarstjórn.

[16:45]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir með þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í þessari umræðu og skora á hæstv. forseta að fresta henni. Það getur vel verið að þessi breytingartillaga sé að einhverju leyti til góðs og sé skárri en það upphaflega frumvarp sem hæstv. iðnaðarráðherra kom með. Hún hefur reyndar túlkað það á mismunandi hátt, en þetta snýst fyrst og fremst um það að við fáum ráðrúm hér til að fjalla um málið á eðlilegan hátt, að ekki verði farið yfir það á einhverju hundavaði. Það er bara eðlilegt að við tökum þann tíma sem þarf. Ég mundi kannski skilja æsinginn í hæstv. iðnaðarráðherra ef það ætti að slíta þingi eftir helgina en það er bara ekki þannig. Af hverju má ekki bíða með þetta mál þangað til á mánudag og halda þá áfram með 2. umr.? Það væri miklu eðlilegra.

Á fundinum í iðnaðarnefnd í dag sem var boðaður í skyndingu eins og ég sagði áðan sat ég sem áheyrnarfulltrúi. Ég er ekki mjög vanur hér á þingi þannig að maður getur látið segja sér ýmislegt um hvernig hlutirnir eigi að ganga. Þannig var að rætt var um málin fram og aftur, fulltrúar iðnaðarráðuneytisins skýrðu málið, voru að vísu með aðeins mismunandi túlkanir á því en þetta var vissulega rætt fram og aftur. Svo var ákveðið að gera fundarhlé og sitjandi formaður iðnaðarnefndar, hv. þm. Einar Oddur, tilnefndi fjóra nefndarmenn í hóp til að fjalla um málið og komast að einhverri niðurstöðu. Ég var ekki í þeim hópi.

Þeir náðu samstöðu um einhverjar breytingartillögur, bættu inn orðum o.s.frv.

Þegar hér var komið sögu spurði ég eðlilega: Þýðir þetta ekki að það verði að fresta umræðunni af því að við erum í miðri 2. umr. um þetta mál? En þá er mönnum sagt að þess þyrfti alls ekki — það var að vísu ekki alveg vitað hvort þetta ætti að vera munnlegt eða hvort það þyrfti að vera skriflegt en síðan varð niðurstaðan sú að auðvitað þyrfti þetta að vera skriflegt. Síðan kemur upp úr dúrnum að (Forseti hringir.) þetta er auðvitað ekki eðlilegt. Þess vegna ítreka ég það að ég skora á hæstv. forseta að fresta fundi svo að við getum fjallað almennilega um þetta mál.