Grunnskólar

Fimmtudaginn 02. febrúar 2006, kl. 16:56:59 (4243)


132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Grunnskólar.

447. mál
[16:56]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil ítreka það sem ég hef sagt: Við getum aukið valmöguleikana, fjölbreytnina og sveigjanleikann innan þess kerfis sem við erum með ef vilji er til staðar.

Hæstv. ráðherra talar um einkaaðila, að það þurfi að fá einkaaðila inn í skólana til að reka þá með hinu opinbera, sveitarfélögunum eins og t.d. er gert í Hjallastefnuskólanum í Garðabæ. Þeir sem reka Hjallastefnuskólann í Garðabæ eru fyrst og síðast hæft skólafólk, það er hæft skólafólk sem rekur þann skóla. Hann er rekinn fyrir opinbert fé eins og stór hluti heilbrigðiskerfisins, eins og hæstv. ráðherra benti á. Hér eru læknastofur sem eru sagðar einkareknar en eru reknar fyrir opinbert fé og eru meira að segja inni í hinu opinbera kerfi. Stundum er eins og Sjálfstæðisflokkurinn sé að stíga eitthvert skref sem er svo ekkert skref.

Ef þetta er bara spurning um að fá hæft fólk til starfa inni í skólunum, hæft skólafólk, þá er fullt af hæfu fólki sem er hægt að fá til liðs sem er til í að ryðja braut fyrir nýjar stefnur inni í skólakerfinu. Það þarf ekki að heita einka og það þarf ekki að taka skólagjöld fyrir það og það þarf ekki að búa til stéttaskiptingu með því, það er hægt að auka þennan sveigjanleika og þessa fjölbreytni innan kerfisins eins og það er í dag.

Varðandi aðstoðarskólastjórana þá er ég hrædd um að þetta ákvæði um þá gæti orðið til þess — þó að hæstv. ráðherra segi að það sé hugsað fyrir litlu skólana, að það sé íþyngjandi fyrir þá að hafa þessar kvaðir á sér — að skólar sem eru í erfiðri stöðu fjárhagslega hugsanlega notfæri sér þetta ákvæði til þess að fækka fólki, notfæri sér það í sparnaðarlegu tilliti og þar með eru þeir líka farnir að veikja hinn faglega grundvöll undir skólastarfinu með því að missa út þessa faglegu framlengingu á skólastjóra sem þörf er fyrir í stærri skólum.

Mér finnst því möguleiki á ákveðinni hættu hér til staðar sem ég þarf að skoða betur og verður auðvitað skoðað vel í menntamálanefndinni.