Grunnskólar

Fimmtudaginn 02. febrúar 2006, kl. 17:15:20 (4245)


132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Grunnskólar.

447. mál
[17:15]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að hv. þingmaður er í grundvallaratriðum fylgjandi því að styðja við sjálfstæða skóla. Hann hefur sagt það í dag og eins áður. Hann telur að þeir eigi rétt á sér og séu góður valkostur, stuðli að valfrelsi og bæti grunnskólastigið. Honum hefur orðið tíðrætt um Hjallastefnuna, sem er mjög gott framtak. Reyndar sker háttvirtur þingmaður sig úr í flokki sínum varðandi þessi sjónarmið.

Það kom skýrt fram í ræðu hans að hann telur að skólagjöld séu af hinu illa, mismuni nemendum og geti valdið því að það skapist forréttindahópar í grunnskólakerfinu. Staðreyndin er hins vegar sú að í sveitarfélögum þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er í forsvari er fullt jafnræði á milli einkaskóla og opinberra skóla varðandi fjárveitingar. Í Barnaskóla Hjallastefnunnar í Garðabæ eru ekki skólagjöld vegna þess að sveitarfélagið viðurkennir að þetta sé réttur barnanna og því eigi féð að fylgja barninu, burt séð frá rekstrarformi.

Þá kemur spurningin: Hvernig skýrir hv. þingmaður að það er einmitt í sveitarfélaginu Reykjavík, þar sem flokksmenn hans ráða í skólamálum, að sú mismunun á sér stað sem hann talar um? Segir ekki hv. þingmaður þar með að jafnaðarmenn standi sjálfir fyrir mismunun með því að veita minna fjármagn til sjálfstæðra skóla í Reykjavík, með því að gera þeim ekki kleift að starfa öðruvísi en að krefjast skólagjalda frá foreldrum?