Grunnskólar

Fimmtudaginn 02. febrúar 2006, kl. 18:09:15 (4260)


132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Grunnskólar.

447. mál
[18:09]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég vil í upphafi segja að mér líst ákaflega vel á frumvarpið sem við ræðum hér, um breytingar á lögum um grunnskóla. Það eru einkum tvö atriði sem ég ætla að fjalla um í ræðu minni. Þau varða bæði ákvæði 23. gr. frumvarpsins, sem felur í sér breytingu á 26. gr. laganna.

Í 2. mgr. 23. gr. frumvarpsins er lagt til að grunnskólar sem hljóti viðurkenningu samkvæmt 1. málsgrein eigi rétt á framlagi úr sveitarsjóði til starfsemi sinnar vegna nemenda sem hafa lögheimili í því sveitarfélagi sem skólinn starfar í. Segir þar jafnframt að framlagið skuli nema að lágmarki 75% af vegnu meðaltali heildarrekstrarkostnaðar allra grunnskóla sem reknir eru af sveitarfélögum í landinu á hvern nemanda samkvæmt árlegum útreikningi Hagstofu Íslands. Gildir þetta hlutfall fyrir skóla með allt að 200 nemendur en framlagið skal vera að lágmarki 70% fyrir hvern nemanda umfram þann fjölda.

Þetta ákvæði frumvarpsins er, eins og kemur fram í almennum athugasemdum með frumvarpinu, ein af meginbreytingunum sem málið felur í sér frá núgildandi grunnskólalögum. Það felur í sér að ákvæði gildandi laga, um stofnun grunnskóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum, eru gerð skýrari auk þess sem lagt er til að lögbundið verði lágmarksfjárframlag sveitarfélaga til reksturs þeirra, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, til að tryggja frekar en nú rekstrargrundvöll þeirra.

Þá kemur fram í athugasemd við greinina, eins og við vitum sem þekkjum þessi lög, að ákvæði um einkaskóla í grunnskólalögum hafa verið óbreytt frá gildistöku grunnskólalaganna 1974. En þessi breyting miðast við að gera stöðu sjálfstætt rekinna grunnskóla hér á landi sterkari með því að lögbinda lágmarksframlag með hverjum nemanda.

Ég verð að segja, fyrir mína parta, frú forseti, að ég fagna þessu ákvæði sérstaklega. Ég tel að með því sé stigið mjög mikilvægt skref í átt að því að efla og treysta rekstrargrundvöll einkaaðila sem fara út í rekstur á grunnskólum. Nokkrir einkaskólar og sjálfstætt reknir grunnskólar hafa verið reknir hér á landi, t.d. Ísaksskóli og Landakotsskóli, Tjarnarskóli og fleiri. Fyrir okkur sem aðhyllumst einkarekstur í skólakerfinu er á ferðinni ákvæði sem ber að fagna og ætti að efla einkarekstur á grunnskólastigi. Ég tel þetta sérstaklega mikilvægt í Reykjavík, í mínu kjördæmi. Má segja að stjórnvöld í borginni hafi kerfisbundið lagt sig fram við að ganga milli bols og höfuðs á einkareknum grunnskólum. Það þekkja þeir best sem standa í þeim rekstri. Það er í raun synd að flokkur, sem lætur í veðri vaka að hann vilji hag menntakerfisins og skólanna sem mestan, hafi gengið þannig fram gagnvart framtakssömum aðilum sem staðið hafa í skólarekstri. Ég á náttúrlega við Samfylkinguna sem hefur farið með menntamálin innan Reykjavíkurlistans. Ég veit að hv. þm. Einar Már Sigurðarson þekkir það vel, enda er hann þingmaður Samfylkingarinnar.

Þessi ágæti flokkur hefur, eins og ég sagði, kerfisbundið lagt sig fram um að ganga milli bols og höfuðs á þessum aðilum. Það er ekki bara ég sem hef haldið því fram heldur miklu fleiri, foreldrar barna sem stunda nám í þessum skólum og ekki síður þeir sem að rekstrinum standa. Á fundum mínum með þessum aðilum hef ég fundið að þeir hreinlega átta sig engan veginn á hvers vegna málum er þannig komið í Reykjavík. Miðað við það sem frá þessum aðilum hefur komið velta menn því fyrir sér hvort þeir hafi gert sveitarstjórnarmönnum í meiri hluta í Reykjavík eitthvað, slík hefur aðförin að einkareknum skólum verið.

Morgunblaðið hefur ítrekað fjallað um þessi mál, bæði í leiðurum og fréttaskrifum, um hvernig Reykjavíkurborg hefur komið fram gagnvart einkaaðilum hér í borginni sem stunda skólarekstur og bent á hvernig R-listinn í Reykjavík hefur traðkað á þeim. Ég tel því að hæstv. menntamálaráðherra sé að stíga hér mjög mikilvægt skref til þess að treysta rekstur þessara aðila, treysta að bæði rekstraraðilar skólanna og sömuleiðis þeir nemendur sem stunda þar nám sitji við sama borð og nemendur þeirra skóla sem sveitarfélögin standa fyrir og reka.

Eins og fram kemur í frumvarpinu er gert ráð fyrir að framlagið skuli nema 75% af vegnu meðaltali heildarrekstrarkostnaðar allra grunnskóla sem reknir eru af sveitarfélögum á landinu á hvern nemanda samkvæmt árlegum útreikningi frá Hagstofunni. Þetta hlutfall gildir fyrir skóla með allt að 200 nemendum. Síðan er hlutfallið 70% gagnvart öðrum stærri skólum. Ég velti því fyrir mér og ég geri ráð fyrir að við ræðum það í hv. menntamálanefnd þegar málið kemur þar til umfjöllunar hvort ekki sé ástæða til þess að hækka þetta hlutfall. Mín athugasemd er því þessi: Væri ekki ráð að við mundum lögfesta það að sveitarfélögin leggi fram sama framlag til einkaskólanna og til opinberu skólanna? Af hverju í ósköpunum á að mismuna nemendum eftir því hvort þeir fara í einkaskóla eða opinberan skóla? Þeir eiga alveg sama rétt gagnvart sveitarfélaginu og nemendur í opinberum skólum. Ég velti þessu svona upp og það væri ágætt að fá viðhorf hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar við þessari hugmynd minni, hvort við ættum ekki að hækka hlutfallið upp í 90–100%. Það væri líka áhugavert af því að mér hefur heyrst að Samfylkingin taki frekar illa í þær hugmyndir, flokkur jafnaðar, hinn breiði jafnaðarmannaflokkur taki illa í það að menn sitji við sama borð þegar kemur að skólamálum. Ég leyfi mér að halda því fram að það væri kannski ástæða til að ganga eilítið lengra og ég vonast til þess og geri ráð fyrir að við tökum þá hugmynd til athugunar þegar málið kemur til umfjöllunar í menntamálanefnd.

Ég ítreka hins vegar, þrátt fyrir að ég sé með þessa litlu athugasemd, að ég fagna því frumvarpi sem hæstv. menntamálaráðherra hefur nú lagt fram og ég tel að það sé risastórt skref í þá átt að efla rekstrargrundvöll einkaaðila á grunnskólastigi. Ég tel að það sé í alla staði mjög gott og ég hlakka til að fjalla um það með félögum mínum í hv. menntamálanefnd vegna þess að ég veit að þegar þeir kafa ofan í málið sjá þeir hvers konar gæðamál er hér á ferðinni.

Hitt atriðið sem ég ætlaði að nefna er 3. mgr. 23. gr. frumvarpsins.

„Menntamálaráðherra er heimilt að setja reglugerð um framkvæmd þessarar greinar í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og Hagstofu Íslands.“

Mín athugasemd varðandi þetta ákvæði er í rauninni bara tæknilegs eðlis. Ég vil benda á að hvorki Samband íslenskra sveitarfélaga né Hagstofa Íslands fer með löggjafarvald þannig að ég tel að það eigi að taka seinni hluta þessarar greinar inn í greinargerð með frumvarpinu og láta þar við sitja að það sé menntamálaráðherra sem setji reglugerðina enda er það í samræmi við lagahefðir okkar og reglur um lagasetningu.

Að svo búnu segi ég það að mér líst vel á þetta frumvarp, fagna því og hlakka til að fjalla um það í menntamálanefnd.