Íslensk leyniþjónusta

Mánudaginn 06. febrúar 2006, kl. 15:15:25 (4283)


132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Íslensk leyniþjónusta.

[15:15]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál mun koma til umræðu í þinginu þar sem þetta er hluti af frumvarpi til laga um breytingu á lögreglulögum sem ég mun flytja hér og snertir skiptingu landsins í lögregluumdæmi og stofnun sérstakrar rannsóknardeildar við sjö lögregluembætti í landinu, breytingu á lögregluumdæmi á höfuðborgarsvæðinu og einnig á Suðurnesjum. Hér er því um tæknilegt atriði að ræða varðandi deildir sem starfa innan ríkislögreglustjóraembættisins og einnig við lögregluembætti annars staðar ef ákvörðun verður tekin um að stofna slíkar deildir.

Varðandi efnisatriði málsins verður fjallað um það í lögum um meðferð sakamála um heimildir þeirra sem við þessar deildir munu starfa. Ég á von á að frumvarp um það efni, um meðferð sakamála og meðferð opinberra mála verði lagt fram til kynningar á þinginu í vor. Þingið mun því ræða þessi mál öll til hlítar áður en þingi lýkur.