Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 06. febrúar 2006, kl. 16:31:30 (4318)


132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[16:31]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar til að fá svör frá hæstv. sjávarútvegsráðherra varðandi tvö atriði. Fyrra atriðið er vegna ákvæðis til bráðabirgða. Hefur hæstv. ráðherra látið skoða það vandlega hvort það að menn geti haldið veiðiréttindum án þess að nýta þau ár eftir ár, eins og hér er gert ráð fyrir, standist stjórnarskrárákvæði um atvinnufrelsi? Ég get ekki séð málefnalegar ástæður fyrir þessu, því að ef þetta er ekki gert í þeim tilgangi að vernda fiskstofninn þá er þetta eingöngu gert til að vernda eignarrétt viðkomandi á veiðiréttinum. Það er atriði sem getur ekki gengið upp gagnvart atvinnufrelsi, þ.e. möguleikum annarra til að nýta sér þetta. Mér finnst lágmark að þeir sem fá slík réttindi nýti þau, a.m.k. sé ekki komið í veg fyrir að aðrir nýti þau ef möguleikar á því eru fyrir hendi og þeir sem fyrir eru nýta þau ekki. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hefur hann látið athuga þetta vandlega? Í öðru lagi spyr ég, og það er vegna 3. gr. um rafrænar tilkynningar, en sagt er frá því í athugasemdum við sömu grein að gert sé ráð fyrir að þetta sé svona í upphafi en síðar verði þetta útvíkkað og gildi um meiri veiðiheimildir en bara þær sem eru í eigu sömu aðila: Gengur þetta upp gagnvart þeirri niðurstöðu sem ríkisskattstjóri hefur komist að, þ.e. að tilkynna beri verð á veiðiheimildum með fullnægjandi hætti til Fiskistofu þegar þær eru fluttar til á milli skipa?