Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009

Fimmtudaginn 09. febrúar 2006, kl. 11:43:38 (4576)


132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[11:43]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get ekkert annað en sagt að ég er sammála hv. þingmanni um það að samgöngur eru gríðarlega mikilvægar. Við eigum vissulega mikið verk óunnið á því sviði, ekki síst á Vestfjörðum. Ég vil þó við upphaf þessarar umræðu biðja hv. þingmenn að hafa skilning á því að ég get ekki farið nákvæmlega inn í málaflokka sem heyra beint undir aðra ráðherra, eins og samgöngumálin gera. Ég tel að ég geti bara ekki annað en tekið undir það sem hv. þingmaður segir um mikilvægi. Uppi eru áform um jarðgangagerð á þessu svæði, eins og hv. þingmaður þekkir. Það hlýtur að koma að því þótt ég ætli ekki að fara nákvæmlega yfir hvenær það verður o.s.frv. Ég þekki alveg bærilega til á Vestfjörðum og veit að þar er gríðarlega mikið verk óunnið milli suður- og norðurfjarða. Það mundi styrkja svæðið allt ef þarna væri hægt að gera mikið átak, og áform eru uppi um það þótt það sé ekki alveg á næstu árum.