Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009

Fimmtudaginn 09. febrúar 2006, kl. 18:10:14 (4676)


132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[18:10]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum samtímis skýrslu um byggðamál og framvindu byggðaáætlunar fyrir síðustu þrjú ár og nýja tillögu um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir næstu þrjú eða fjögur ár.

Gögnin sem hér liggja fyrir lúta annars vegar að því að greina stöðuna og ástæður hennar. Hins vegar eru settar fram tillögur til úrbóta. Það er ljóst, þegar maður fer í gegnum þetta efni, að þau atriði sem mestu ráða um þróunina eru tekjur og atvinna. Ef maður lítur á upplýsingarnar sem fylgja með í gögnum um þau atriði sést að dregið hefur sundur með höfuðborgarsvæðinu annars vegar og landsbyggðinni hins vegar hvað varðar tekjuþróun.

Á árabilinu 2001–2004 hækkuðu tekjur á höfuðborgarsvæðinu um 16% að raungildi en á landsbyggðinni ekki nema um 12%. Það þýðir að munurinn á meðaltekjum á þessum tveimur atvinnusvæðum jókst. Hann var 13% árið 2001 en komst í 16% árið 2004. Þetta hefur í för með sér að fólk færir sig til frá störfum þar sem tekjur eru lægri til starfa þar sem tekjurnar eru hærri. Að því leyti hefur okkur ekki miðað í rétta átt, a.m.k. að meðaltali, þegar við berum saman þessi tvö svæði landsins, höfuðborgarsvæðið og landsbyggðina, ef við lítum á hana sem eina heild.

Annað atriði sem rétt er að skoða er þróun starfa. Í þingsályktunartillögu um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2006–2009 er að finna greinargerð sem unnin er af Byggðastofnun af þessu tilefni. Þar kemur fram að störfum fjölgaði um 7% á landinu öllu frá árinu 1998 til 2003. Störfum fjölgaði í þjónustugreinum en fækkaði í frumvinnslugreinum. Þeim fjölgaði um 14% í þjónustugreinunum en fækkaði um 13% í frumvinnslunni. Sé þróun starfa skoðuð svæðisbundið kemur í ljós að störfum fjölgaði á höfuðborgarsvæðinu og á svæðum í kringum það, þ.e. á Suðurlandi, Reykjanesi og Vesturlandi. Störfum í þjónustugeiranum fjölgaði en samdrátturinn varð í frumvinnslunni og niðurstaðan var því fjölgun starfa á höfuðborgarsvæðinu og aðliggjandi landsvæðum, Suðurnesjum, Suðurlandi og Vesturlandi. Annars staðar fækkaði störfum.

Af þessu má ráða að mönnum hafi að hluta miðað áfram í að styrkja búsetu um landið, þ.e. á þeim svæðum landsins þar sem störfum fjölgar. En mönnum hefur ekki miðað áleiðis heldur fremur aftur á bak á öðrum svæðum landsins, þ.e. svæðinu þar sem Vesturlandi sleppir, á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi, þar sem störfum fækkar. Þar hefur mönnum ekki miðað áleiðis.

Þetta endurspeglast í þriðju kennitölunum sem við skoðum gjarnan, fólksfjöldaþróuninni. Það kemur í ljós að fólki fjölgar á höfuðborgarsvæðinu og reyndar líka á aðliggjandi svæðum eins og Vesturlandi, Suðurnesjum og Suðurlandi. En hins vegar er fólksfækkun á öðrum svæðum landsins þegar miðað er við árin 1995–2004.

Mest er fólksfækkunin þar sem störfum hefur fækkað mest. Minnst er fólksfækkunin þar sem störfum hefur fækkað minnst. Það er líka samhengi á milli tekna og mannfjölda. Þar sem atvinnutekjur hækka minna en annars staðar fjölgar fólki minna og fækkar jafnvel.

Á Vestfjörðum hefur fólksfækkunin verið mest frá 1995–2004. Þar hefur hún verið um 1.320 manns, um 15% fækkun. Þegar maður skoðar gögnin betur kemur fram að störfum hefur fækkað um 42% í fiskveiðum á Vestfjörðum á fimm ára tímabili, frá 1998–2003. Í öðrum gögnum, t.d. skýrslu sem nýlega komu út í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu sem heitir „Landfræðilegt litróf íslenska fasteignamarkaðarins“, sést að raunhækkun launa á Vestfjörðum var aðeins helmingur þess sem hún var annars staðar á landinu á árabilinu 1990–2004.

Slíkar breytingar í tekjum og atvinnu leiða af sér mikla fólksfækkun og hún er mest á Vestfjörðum. En hún er líka mikil á hinu gamla Norðurlandi vestra. Þar fækkað fólki á árabilinu 1995–2004 um 1.220 manns eða um 12%. Þessar tölur draga því staðreyndirnar býsna glögglega fram og skýra hvers vegna þróunin er sú sem hún hefur orðið. Við sjáum líka að fólksfækkun á Austurlandi var með sama hætti, fyrri hluta þessa tímabils, og hún var á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra. Þar var veruleg fólksfækkun. En á seinni hlutanum, þ.e. frá 2000–2004, fjölgar fólki á Austurlandi um 350 manns, fyrst og fremst vegna opinberra aðgerða í atvinnumálum, þ.e. virkjunarframkvæmdar sem þar var sett í gang og álversuppbyggingar sem tengist henni. Hefði það ekki komið til hefði þróunin á Austurlandi orðið hin sama og á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra.

Þetta er dregið fram í skýrslu iðnaðarráðherra um framvinduna og kemur fram í mati Byggðastofnunar, að árangurinn af þeim aðgerðum sem ríkið réðist í á síðasta tímabili byggðaáætlunar sé verulegur og sums staðar mjög mikill. Það má taka undir það því að verulegur árangur hefur orðið á Vesturlandi, Suðurlandi og Suðurnesjum. Það sjáum við glögglega á öllum kennitölum. En þar segir líka, með leyfi forseta:

„Aðgerðir hafa þó ekki skilað nægum árangri á nokkrum landsvæðum, svo sem Vestfjörðum og Norðurlandi vestra, norðausturhorninu, sunnanverðum Austfjörðum, Skaftafellssýslum og Vestmannaeyjum.“

Þannig eru býsna stór svæði á landinu og nokkuð fjölmenn, þegar þau eru lögð saman, þar sem ekki hefur tekist vel til. Það blasir einfaldlega við í öllum kennitölum sem við skoðum og í mati á árangrinum, eins og því er lýst af hálfu Byggðastofnunar.

Þar sem ekki hefur ekki tekist vel til er sjávarútvegur langstærsta atvinnugreinin. Það þýðir ekki, virðulegi forseti, að berja höfðinu við steininn. Menn verða að viðurkenna þá staðreynd að löggjöfin um þá atvinnugrein hefur haft veruleg áhrif til hins verra á íbúaþróun, fjölda starfa og tekjuþróun á þeim svæðum. Framsal veiðiheimilda hefur haft neikvæð áhrif á flestum þessum stöðum, ef ekki öllum, og það afmarkast reyndar ekki við þessi svæði. Við sjáum í nýjustu þróun í þeirri atvinnugrein að stór byggðarlög eins og Akranes og Akureyri hafa misst frá sér veiðiheimildir og tapa störfum í kjölfar þess. Menn verða að taka þá löggjöf upp og koma sér saman um breytingar á löggjöfinni um stjórn fiskveiða til að tryggja störfin í sjávarútvegi á þessum svæðum landsins. Það er að mínu viti, virðulegi forseti, óhjákvæmilegt. Meðan menn taka ekki á skipulaginu í þeirri atvinnugrein er borin von að almennilegur árangur náist á viðkomandi landsvæðum, nema gripið yrði til stórfelldra aðgerða í atvinnumálum af öðru tagi, svo sem stóriðju. En víðast hvar er það ekki fær leið á þeim svæðum landsins sem ég nefndi sérstaklega og Byggðastofnun bendir á að hafi ekki gengið vel með.

Ég vildi að mönnum væri ljóst, virðulegi forseti, að ég tel óhjákvæmilegt að taka á löggjöfinni um sjávarútveginn ef menn ætla að snúa þróuninni við. Ég spyr líka, ef menn ætla ekki að gera það en ætla samt að ná árangri á þessum stöðum: Hvernig á það að gerast? Það eru engin teikn um það í þeim tillögum sem hér liggja fyrir að nokkuð eigi að gera sem skipta muni verulegu máli til sóknar fyrir þessi byggðarlög þótt þar sé auðvitað að finna margar ágætar tillögur sem leiða af sér úrbætur fyrir einstök landsvæði og hjálpa til við að styrkja byggð. Þær munu ekki snúa við þróuninni í atvinnumálum einar og sér. Til þess þurfa menn að grípa til aðgerða og verja til þeirra miklu fé og afli. Það hafa menn gert með góðum árangri á Austurlandi og hið sama þarf að gerast annars staðar á landinu ef menn ætla að ná viðlíka árangri. Því miður sé ég það ekki í þeim tillögum sem hér liggja fyrir. Það þarf að styrkja tillögurnar verulega til að menn öðlist trú á að að svo geti orðið.

Virðulegi forseti. Af mörgu er að taka í þessum efnum. Eitt af því sem drepið er á í tillögum til þingsályktunar sem til bóta gæti horft er að breyta löggjöf um sveitarfélögin, styrkja þau, færa þeim aukin verkefni og áhrifavald og stærri hluta af skattpeningum. Ég tel að menn eigi að fara þá leið og með myndarlegum hætti. Mér finnst vanta í tillöguna sem liggur fyrir þinginu hugmyndir um hvað eigi að gera. Talað er um að huga eigi að breytingum á verkaskiptingu en engin tillaga gerð um aðgerðir, sem er auðvitað aðalatriðið. Það er ekki hægt að leggja fyrir okkur að skoða þurfi þetta eða hitt. Við vitum það. Það eru mörg ár síðan að mönnum varð ljóst að breytingar að þessu leyti gætu veruleg jákvæð áhrif. Það sem vantar er að menn komi sér saman um og komi fram með tillögur sem máli skipta í þessu efni.

Ég held ég láti máli mínu lokið, virðulegi forseti. Tíminn er að renna út og býsna mörg atriði eru óupptalin. Ég læt þetta duga enda held ég að ég hafi náð að koma aðalatriðum málsins á framfæri. Mönnum hefur á sumum svæðum landsins miðað áfram. Á öðrum svæðum landsins hefur mönnum ekki miðað áfram, heldur jafnvel aftur á bak. Fyrir þau svæði vantar kraftmeiri tillögur til að snúa þróuninni við.