132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[13:47]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni fyrir einlæga ræðu hans. Hann kom þar m.a. inn á tvo hluti sem eru okkur báðum mikið hjartans mál. Það er annars vegar upplýsingar um fjárhag, eða réttara sagt um bókhald stjórnmálaflokkanna. Og til að fylla út í umræðuna vil ég af þessu tilefni minna hv. þm. Sigurjón Þórðarson á að það er að störfum nefnd með aðkomu allra stjórnmálaflokkanna, eftir því sem ég best veit, sem forsætisráðherra skipaði einmitt til að fjalla um þetta. Spurningin er síðan hvort flokkarnir komast þar ekki að sameiginlegri niðurstöðu þannig að þær forsendur sem hv. þingmaður nefndi fyrir áframhaldandi einkavæðingu og afsali á réttindum ríkisins liggi þá fyrir að loknum störfum þeirrar nefndar.

Hitt sem ég vil einnig árétta, af því að hv. þingmaður lagði ekki minni áherslu á að fjármál þeirra sem sækjast eftir að fara með opinbert vald séu uppi á borðinu, er að á síðasta þingi sendi Framsóknarflokkurinn forsætisnefnd erindi um þetta og hvatti til þess að settar yrðu samræmdar reglur fyrir alla þingflokkana um þetta. Framsóknarflokkurinn ákvað síðan fyrir sitt leyti að bíða ekki eftir því að menn næðu saman heldur dreif í því að birta þessar upplýsingar um alla þingmenn og ráðherra þess flokks. Og svona til að halda því til haga þá er öðrum flokkum á þingi auðvitað í sjálfsvald sett að gera slíkt hið sama og taka sér Framsóknarflokkinn að því leyti til fyrirmyndar.

Ég deili áhuga þingmannsins á þessu tvennu og hef verið talsmaður þess ekki bara að gera eins og við í Framsóknarflokknum gerðum, að birta upplýsingar um okkar eigin fjármál og tengsl, heldur jafnframt að upplýsingar um fjármál stjórnmálaflokkanna séu opinberar og aðgengilegar. Við eigum svo eftir að sjá hver niðurstaðan verður í þessari nefnd sem allir flokkar á þingi eiga aðkomu að.