Tæki stjórnvalda til að stuðla að lækkun matvælaverðs á Íslandi

Mánudaginn 13. febrúar 2006, kl. 16:00:37 (4840)


132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Tæki stjórnvalda til að stuðla að lækkun matvælaverðs á Íslandi.

[16:00]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég vil, eins og aðrir þingmenn, þakka hv. þm. Ástu Möller fyrir að taka þetta mál hér upp um matvælaverð. Hún nefndi nokkra þætti sem þar hefðu áhrif og spurði eftirfarandi spurningar: Hvar getur hið opinbera komið inn?

Ég vil aðeins nefna einn þátt, sem hún kom einmitt inn á, það eru samkeppnismálin og fákeppnin. Það hlýtur að vekja upp margar spurningar að tveir eða þrír aðilar eru komnir með meginhluta af allri smásölu og reyndar heildsölu á þessum vörum í landinu. Ég spyr: Er ekki kominn tími til að sett sé hámark á það hvað hver aðili má fara með stóran hluta af umsvifum eins og þessum í samfélaginu? Maður getur spurt sig: Hverjum þjónar það t.d. þegar Hagar, móðurfyrirtæki sem er í eigu Baugs og rekur m.a. Bónus, Hagkaup, 10–11 og fleiri verslanir, fóru í verðstríð við sjálfa sig, ef svo má segja, eða örfáa aðila fyrir áramótin og segjast hafa tapað á því 700 millj. kr.? Jú, með því að selja mjólkurlítrann á krónu o.s.frv.

Hver græðir á slíkum vinnubrögðum? Jú, það er hægt að drepa einhverja en þegar upp er staðið er þetta háttalag ekki hagur fyrir öfluga matvöruverlsun í landinu. Þess vegna tel ég mjög koma til greina að banna „dumping“ svokallað, þegar vörur eru seldar langtímum saman undir framleiðslukostnaðarverði. Tökum kjötstríðið hér fyrir nokkru síðan. Það á ekki að leyfa t.d. að fjármálastofnun, banki, eigi kjötframleiðslufyrirtæki, jafnvel sláturhús, og sé svo með allt í viðskiptum og ráði þess vegna verði og geti dumpað verði á kjöti á markaðnum eins og gerðist á sínum tíma með svínakjötið.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt fram frumvarp sem takmarkar slíkt og gerir það óheimilt. Það er hægt að koma að þessum málum á mörgum sviðum, frú forseti.