Friðlýsing Jökulsár á Fjöllum

Þriðjudaginn 14. febrúar 2006, kl. 18:17:14 (4945)


132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Friðlýsing Jökulsár á Fjöllum.

68. mál
[18:17]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég lýsi yfir sérstakri ánægju minni með að þessi tillaga til þingsályktunar um friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum kemst nú á dagskrá og þakka framsögumanni hv. þm. Halldóri Blöndal fyrir greinargóða lýsingu á efni þingsályktunartillögunnar og þeirri stórkostlegu náttúruparadís sem allt þetta svæði er. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir fór síðan vel yfir það, sérstaklega með tilvísun í Vatnajökulsþjóðgarð, sem vonandi kemst á sem fyrst, að þarna sé að mörgu leyti um sambærilega hluti að ræða. Það er í fjórða skiptið sem þessi þingsályktunartillaga er lögð fyrir þingið. Eins og kom fram áðan hafa komið fjölmargar umsagnir og nú ætti umhverfisnefnd að vera lítið að vanbúnaði að afgreiða málið skjótt og ég er viss um að 1. flutningsmaður þingsályktunartillögunnar, Steingrímur J. Sigfússon, mundi gleðjast mikið ef þetta kæmist nú í gegnum þingið nú fyrir vorið.

Í greinargerð með tillögunni er sagt frá því að enginn vafi sé á að Jökulsá, Dettifoss og Jökulsárgljúfur, að meðtöldu hinu stórbrotna umhverfi árinnar, allt frá upptökum við jaðra Dyngjujökuls og Brúarjökuls til sjávar í Öxarfirði, er einstæð náttúrugersemi. Fyrst skal frægan telja Dettifoss, sem oft er titlaður aflmesti eða voldugasti foss í Evrópu, þá hin miklu gljúfur, Hafragilsfoss og Selfoss og þjóðgarðinn í Jökulsárgljúfrum að meðtöldu Ásbyrgi. Það er einmitt mjög mikilvægt að þetta verði allt tengt saman svo við fáum þarna heild.

Um svæðið má segja að Jökulsá á Fjöllum sé bandið sem tengir saman og gerir að einni heild eitthvert stórkostlegasta náttúrufyrirbæri jarðarinnar. Samspil elds og ísa, landmótun og jarðfræði sem einkennist af mikilli eldvirkni og m.a. móbergsmyndunum frá ísaldartímum sem eiga enga sína líka í veröldinni, ummerki gríðarlegra hamfarahlaupa, gróðurvinjar, úfin hraun og eyðimerkur, dýralíf og vatnafar. Það hefur líka komið fram að ýmsir ásælast þetta mikla fljót og í síðustu viku að hæstv. iðnaðarráðherra ítrekaði að hún væri iðnaðarráðherra og hefði þess vegna það markmið að virkja sem mest og flest hér á landi og gott ef ekki bara menga sem mest líka. Minntist einmitt á það að þarna væri mikil orka fólgin. Einhvern tímann hefur verið komið inn á og upp kom sú tillaga, af því að Dettifoss er auðvitað af mörgum mjög mikilvægur, er aflmikill og glæsilegur foss, að hægt væri að setja einhvers konar krana á fossinn þó virkjað yrði og hægt yrði að skrúfa frá honum fyrir túrista. Við getum séð fyrir okkur hvers konar skelfileg örlög það væru fyrir einn hinn glæsilegasta foss á landinu. Ég ætla rétt að vona að það verði ekki raunin.

En eins og hv. þm. Halldór Blöndal sagði fer þeim fjölgandi, ekki bara hér þinginu, heldur á landinu öllu, trúi ég, sem kunna að meta vatnasvið Jökulsár á Fjöllum, og reyndar fleiri náttúruperlur á landinu sem mikilvægt er að bjarga áður en allt verður virkjað og nýtt á þann hátt. Þess ber að geta að Jökulsá á Fjöllum er næstlengsta á landsins og nær yfir stærsta vatnasviðið, um 8000 ferkílómetra, og er auk þess fjórða vatnsmesta fallvatnið miðað við meðalrennsli. En rennslið er auðvitað mjög breytilegt í þessari mikilfenglegu á.

Eins og hv. þm. Halldór Blöndal kom inn á er ekki tilgangurinn með þessari þingsályktunartillögu að berjast fyrir uppblæstri, síður en svo. Auðvitað má vernda svæði í sambandi við t.d. um brú yfir ána. Við vorum einmitt að tala um það hér í þarsíðustu viku held ég að gamla brúin á Jökulsá á Fjöllum er komin til ára sinna, glæsilegt mannvirki og falleg, en er einbreið og mjög mjó. Þó að þetta yrði allt gert að þjóðgarði eða friðlýst kemur vel til greina að halda áfram uppbyggingu á vegi þarna. Ég held reyndar að það yrði mikill akkur fyrir ferðaþjónustu á þessu svæði sem hefur reyndar verið að aukast gríðarlega á síðustu árum og á eftir að aukast enn meira ef þessi tillaga nær fram að ganga og skipuð verður nefnd til að undirbúa friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum og hvernig eigi að tengja þetta fyrirhuguðum Vatnajökulsþjóðgarði og síðan þjóðgarðinum gamla í Jökulsárgljúfrum og með það í huga að stofna fleiri þjóðgarða eða verndarsvæði norðan jökla.

Ég ítreka að ég vona að tillagan nái fram að ganga á þessu þingi svo ekki þurfi að leggja hana fram í fimmta sinn á næsta þingi og því liggur á að hún fái skjóta afgreiðslu í umhverfisnefnd þingsins.