Styrkir til foreldra sem ættleiða börn frá útlöndum

Þriðjudaginn 14. febrúar 2006, kl. 18:46:06 (4950)


132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Styrkir til foreldra sem ættleiða börn frá útlöndum.

213. mál
[18:46]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Virðulegi forseti. Hér erum við að ræða tillögu til þingsályktunar um styrki til foreldra sem ættleiða börn frá útlöndum. Fyrsti flutningsmaður, hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir, gerði góða grein fyrir þessari tillögu og benti á að þetta er í þriðja skipti sem hún er flutt og gildir nú hið sama um þessa þingsályktunartillögu og aðrar sem daga oft uppi, að nú ríður á að þessu sé hraðað í gegnum nefnd. Það ætti ekkert að vera að vanbúnaði vegna þess að hér liggja fyrir mjög jákvæðar umsagnir frá hlutaðeigandi aðilum og ætti því að vera greið leið í gegnum þingið.

Þetta er ekki stór hópur sem um ræðir, kjörforeldrar sem ættleiða börn erlendis frá, en þetta er auðvitað stækkandi hópur og okkur ætti að vera mjög mikilvægt að börnin eignist gott heimili og að við getum lagt okkar litla lóð á þær vogarskálar, auk þess sem það er auðvitað ómetanleg gleði í þeim fjölskyldum sem taka að sér barn á þennan hátt. Hér hafa því miður ekki verið veittir neinir styrkir til kjörforeldra og það er farið yfir það í greinargerð í frumvarpinu að á Norðurlöndunum eru styrkirnir verulegir, allt frá 170–400 þús. kr. á barn. Og eins og hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir kom inn á er þetta auðvitað jafnréttismál vegna þess að þetta getur verið efnalitlum fjölskyldum mjög þungur baggi og því er auðvitað mikilvægt að fá þennan stuðning og styrk frá velferðarkerfinu sem ætti að auðvelda þeim að ættleiða börn.

Það eru margir sem hafa látið til sín taka í þessum málaflokki. Hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir minntist á nýlega ályktun Félags ungra framsóknarmanna. Aðalfundur Verkalýðsfélags Húsavíkur hvatti stjórnmálaflokka og þingmenn til að taka málið upp og aðstoða fólk sem er að ættleiða börn frá útlöndum.

Í umsögn ASÍ segir, með leyfi forseta:

„Ættleiðingum frá útlöndum fylgir umtalsverður kostnaður, svo mikill að þær eru ekki á færi lágtekjufólks.“

Félagið Íslensk ættleiðing hefur sett niður á blað drög um hvernig þessir styrkir gætu litið út og reglur þar að lútandi. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs tökum heils hugar undir þessa tillögu og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir er einn af flutningsmönnum hennar. Ég vona að málið fái skjóta og góða framgöngu hér á þingi.