Samstarf til að styrkja rannsóknir á hvalastofnum í Norður-Atlantshafi

Fimmtudaginn 23. febrúar 2006, kl. 12:04:45 (5403)


132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Samstarf til að styrkja rannsóknir á hvalastofninum í Norður-Atlantshafi.

542. mál
[12:04]
Hlusta

Flm. (Halldór Blöndal) (S):

Herra forseti. Tillögugreinin er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar, með hliðsjón af ályktun Vestnorræna ráðsins á ársfundi 2005, að fela ríkisstjórninni, í samvinnu við landsstjórnir Færeyja og Grænlands, að efna til samstarfs til að styrkja rannsóknir á hvalastofnum í Norður-Atlantshafi, þar með talið að tryggja að fundnar verði raunhæfar tölur um stofnstærðir jafnt friðaðra sem kvótaveiddra hvala í Norður-Atlantshafi.“

Tillaga þessi er sett fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 3/2005 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 22.–24. ágúst 2005. Ályktun ráðsins var efnislega á þessa leið:

Vestnorræna ráðið hvetur landsstjórn Færeyja, landsstjórn Grænlands og ríkisstjórn Íslands til að efna til samstarfs um að styrkja rannsóknir á hvalastofnum í Norður-Atlantshafi, þar með talið að tryggja að fundnar verði raunhæfar tölur um stofnstærðir jafnt friðaðra sem kvótaveiddra hvala í Norður-Atlantshafi.

Hvalveiðar í vestnorrænum löndum byggjast á fornri venju. Ofveiðar á hvölum um aldir hafa þó valdið því að hvalastofnar í Norður-Atlantshafi hafa minnkað stórlega. Nauðsynlegt er að halda áfram stöðugum rannsóknum á hvölum til að tryggja að með tíð og tíma skapist forsendur fyrir fjölbreyttari hvalveiðum á fleiri tegundum en nú, svo framarlega sem rannsóknir færa sönnur á að tegundirnar megi veiða á sjálfbæran hátt.

Á því leikur enginn vafi að það er von og vilji Vestur-Norðurlanda að hvalveiðar verði aldrei stundaðar á hafsvæðum landanna nema á sjálfbæran hátt. Af sömu ástæðu hafa öll vestnorrænu löndin stutt alþjóðlegan samning um fjölbreytileika lífríkis hafsins. En nákvæmar og áreiðanlegar tölur um marga hvalastofna í vestnorrænum höfum skortir. Þetta á einnig við um hvalastofna sem vegna fyrri tíma veiðiálags hafa verið friðaðir árum saman.

Vestnorræna ráðið álítur mikilvægt og réttmætt að vestnorrænum hvalastofnum verði með lagasetningu og kvótum tryggð framtíð í hafsvæðum landanna. Það er von Vestnorræna ráðsins að stjórnir þessara þriggja landa vinni að því að styrkja hvalarannsóknir á einhverjum viðeigandi vettvangi, t.d. í Norður-Atlantshafsspendýraráðinu. Ráðið hvetur því vestnorræn stjórnvöld til að hafa samráð um að tryggja að áfram verði skipst á þekkingu um talningu og skráningu hvalastofna í Norður-Atlantshafi.

Með því að tryggja nákvæma talningu hvalategunda á vestnorrænum hafsvæðum tryggja Vestur-Norðurlönd sér einnig sterka stöðu í umhverfismálum og auka líkurnar á að komið sé í veg fyrir ofveiði ef í ljós kemur að einhver hvalategund er sjaldgæfari en álitið hafði verið. Með þetta í huga hvetur Vestnorræna ráðið vestnorræn stjórnvöld til að vinna saman að því að styrkja rannsóknir á hvalastofnum í Norður-Atlantshafi, m.a. að tryggja með talningu raunhæfar upplýsingar um stofnstærðir hvala í Norður-Atlantshafi, bæði friðaðra og kvótaveiddra. Hvatt er til þess að tölulegar upplýsingar séu staðfestar með talningu, bæði úr lofti og á legi, og talningin fari fram í samvinnu við og með aðstoð viðeigandi samtaka á hverjum stað.

Ég vil bæta því við, herra forseti, að hér við land, eftir að Íslendingar tóku sjálfir hvalveiðarnar í sínar hendur árið 1947, var þeim haldið í því hófi að hér var ekki um ofveiði að ræða heldur takmarkaðist sókn í hvalastofna við það að veiðarnar væru sjálfbærar. Meðan ég var í hvalstöðinni vann ég þar með enskum vísindamönnum og niðurstaða þeirra var sú að við Íslendingar gengjum skynsamlega að þeim veiðum og í miklu hófi. Umfram allt var um það hugsað að hægt væri að nýta hvalaafurðir til manneldis eins og saga hvalstöðvarinnar sýnir glögglega. Bátunum voru settar mjög strangar reglur, þeir urðu að koma að landi innan ákveðins tíma sem tryggði að kjöt hafði ekki skemmst né aðrar afurðir hvalanna. Nú er ég auðvitað að tala um stórhvalaveiðar en ef við tölum um hrefnuveiðar þá er það náttúrlega víðs fjarri að hér hafi nokkru sinni verið ofveiði á hrefnu.

Ég álít að þessi tillaga sé mjög þörf. Ég álít að við Íslendingar hljótum að athuga okkar gang í sambandi við hvalveiðar og ég tel að við eigum að hafa augun opin fyrir því hvort ekki muni í framtíðinni verða unnt á nýjan leik að taka upp hvalveiðar í atvinnuskyni.