Fjármálaeftirlit

Fimmtudaginn 23. febrúar 2006, kl. 16:01:59 (5448)


132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Fjármálaeftirlit.

556. mál
[16:01]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég spurði hæstv. ráðherra spurningar hérna áðan sem ég óska eindregið að fá svar við. Hæstv. ráðherra segir það ekki sitt hlutverk að óska eftir að þessi eftirlitsstofnun fari í að skoða ákveðin mál. Við vorum að tala hér um einkavæðingarmálið. Við vorum að tala um einkavæðingu Búnaðarbankans. Ég spurði hæstv. ráðherra: Hver á að gæta hagsmuna almennings í þessu máli? Hver átti að snúa sér til eftirlitsins og óska eftir að það fjallaði um málið, ef menn töldu að þannig þyrfti að standa að málum? Það væri ekki verið að ganga þá götu sem væri eðlilegt að ganga í þessu samhengi. Hver er það sem átti að gera þetta? Hæstv. ráðherra ber ábyrgð á einkavæðingunni með öðrum ráðherrum í ríkisstjórninni. Einkavæðingarnefndin hafði þá framkvæmd á höndum. Hver átti að snúa sér til eftirlitsins ef niðurstaðan var sú að gera það? Og hver tók svo ákvörðun um að það væri engin ástæða til þess?