Skattaumhverfi líknarfélaga

Fimmtudaginn 23. febrúar 2006, kl. 16:27:59 (5458)


132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Skattaumhverfi líknarfélaga.

547. mál
[16:27]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Ég þakka 1. flutningsmanni þessarar þingsályktunartillögu, hv. þm. Söndru Franks, kærlega fyrir að leggja þetta mál fram.

Ég hélt að við viðurkenndum öll mikilvægi líknarfélaga og að stjórnvöld gerðu það líka en hér kemur einmitt fram í greinargerð að þrátt fyrir jákvæða afstöðu stjórnvalda til líknarfélaga hafi skattumhverfi þeirra og frjálsra félagasamtaka farið versnandi á Íslandi á síðari árum. Til marks um það má nefna ákvörðun Alþingis frá 1996 um að frjáls félagasamtök skyldu greiða fjármagnstekjuskatt og fyrrgreinda breytingu á erfðafjárskatti frá 2004 um að hann skyldi lagður á gjafir til líknarfélaga.

Það er einkunnin sem hæstv. fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins fær enn og aftur að verið er að auka skattaálögur á þá sem síst skyldi hér á landi. Síðan heyrum við fréttir um að þeir sem eru með hæstar tekjur í landinu séu hins vegar þeir einu sem fái skattalækkanir. Ég vil í þessu sambandi minna á tillögu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um fjármagnstekjuskatt, en við leggjum þar til að fjármagnstekjuskattur verði felldur niður af litlum fjármagnstekjum, að þeir sem fá greitt innan við 100 þús. kr. í fjármagnstekjur á ári ættu ekki að þurfa að borga neinn fjármagnstekjuskatt, en hins vegar gætu þeir sem eru með miklar fjármagnstekjur vel borgað t.d. 18% í stað 10%, sem er náttúrlega mjög lág prósenta í þessu tilviki. Þá fjármuni sem við gætum fengið fyrir þetta — það hefur verið reiknað út að þarna kæmu nokkrar milljónir í ríkiskassann — væri síðan hægt að nýta til góðra verka, t.d. með því að styrkja sveitarfélögin til að hafa gjaldfrjálsan leikskóla og ókeypis skólamáltíðir eða að styrkja líknarfélög. Þess vegna fagna ég mjög þessari þingsályktunartillögu og þakka fyrir hana.