Tannlækningar

Föstudaginn 03. mars 2006, kl. 15:39:34 (5615)


132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Tannlækningar.

252. mál
[15:39]
Hlusta

Jón Kr. Óskarsson (Sf):

Hæstv. forseti. Góður þingheimur. Ég fagna þessu frumvarpi til laga. Ég tel þetta mikið hagsmunamál fyrir eldri borgara og barnafjölskyldur sérstaklega. Það er nauðsynlegt fyrir okkur að vita hvað við þurfum að greiða fyrir tannlæknaþjónustu. En mig langar reyndar að minnast á eitt atriði. Ég varð þess áskynja fyrir nokkru, en ég hef nú farið í reglulegt eftirlit á hverju ári, að Tryggingastofnun ríkisins greiðir fyrir eftirlit hjá tannlæknum einu sinni ári. Mér kom það svolítið á óvart.

En hún er mjög athyglisverð þessi samanburðargjaldskrá við Norðurlöndin, frá 267 þúsund niður 132 þúsund, þ.e. að sambærileg þjónusta kosti 267.384 kr. á Íslandi en 132.040 kr. í Svíþjóð. Þetta segir kannski ákveðna sögu. Ég veit ekki hversu ítarleg þessi rannsókn er eða nákvæm en þetta segir ábyggilega eitthvað um hlutina.