Vatnalög

Föstudaginn 10. mars 2006, kl. 13:08:36 (5972)


132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[13:08]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil gjarnan vitna um að hv. þm. Pétur H. Blöndal er gjarnan viðstaddur umræður og tekur virkan þátt í umræðum. Það er virðingarvert og sérstaklega þegar stjórnarþingmaður á í hlut.

Ég tek skýrt fram að ég ber fulla virðingu fyrir nefndarmönnum iðnaðarnefndar, ekki síst hv. formanni iðnaðarnefndar. Í máli mínu vildi ég ekki á nokkurn hátt halla á þá. Ég taldi nauðsynlegt að ræða við ráðherrann, handhafa framkvæmdarvaldsins eins og hv. þingmaður bendir réttilega á, um tilefni málatilbúnaðarins. Það eru einfaldlega spurningar sem ég tel ekki hægt að ætlast til af formanni iðnaðarnefndar Alþingis að hann svari. Málið er ekki undan hans rótum runnið og ég tel að hann geti ekki staðið skil á tilefnum þess að það er flutt. Af þeim ástæðum taldi ég að eiga þyrfti orðastað við hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra um málið. Ég vona að hv. þingmaður sé ekki ósammála mér um að þingmenn eiga kröfu til að ráðherrar í þeim málaflokkum sem undir eru á hverjum tíma séu viðstaddir mál manna, óski þeir þess og sérstaklega ef um það standa miklar deilur.

Ég árétta að það var ekki meining mín að gera lítið úr nefndarmönnum iðnaðarnefndar þótt ekki verði fram hjá því horft að ráðherra í málaflokknum mun hafa mikið um þá afgreiðslu að segja sem málið fær í þinginu. Hann situr jafnframt í þingflokki annars stjórnarflokkanna og þeir hafa, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal veit, talsvert um málalyktir að segja. Í því felst ekki virðingarleysi fyrir þinginu heldur þvert á móti, hv. þingmaður.