Þjóðskrá og almannaskráning

Þriðjudaginn 21. mars 2006, kl. 14:28:18 (6488)


132. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2006.

Þjóðskrá og almannaskráning.

566. mál
[14:28]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir það sem hann sagði. Ástæða þess að hætt var við að flytja þetta mál til ríkisskattstjóra var einfaldlega sú að niðurstaðan varð að það þætti hentugra og hagkvæmara að sameina það starfsemi sem heyrir undir dómsmálaráðuneytið og m.a. með tilliti til þess að það þarf að breyta vegabréfaútgáfunni og einnig að þar væru möguleikar á hagræðingu í framtíðinni í samvinnu við aðrar stofnanir dómsmálaráðuneytisins.

Að því er varðar aukinn aðgang annarra stofnana að þjóðskránni er mér ekki kunnugt um að það sé eitthvert vandamál. Ég vænti þess að lögreglan hafi fullan aðgang að þeim upplýsingum sem lögreglan telur nauðsyn á.

Að því er varðar breytingar á starfsmannahaldi verður ekki um slíkar breytingar að ræða vegna þessarar aðgerðar en auðvitað eru alltaf einhverjar breytingar á starfsmannahaldi í stofnunum. Það mun eiga sér stað ákveðin endurskipulagning á stofnuninni en gert er ráð fyrir auknum verkefnum eins og hér hefur komið fram þannig að ég veit ekki til þess að það sé eitthvert sérstakt vandamál sem af þessu hlýst að því leytinu til.

Að því er varðar gjaldtökuna þá vænti ég þess að hv. þingmaður geti fengið upplýsingar um það í þeirri nefnd sem fær málið til umfjöllunar. Að lokum, að því er varðar hugsanlegar breytingar á Stjórnarráðinu þá er sú vinna í fullum gangi og þeir ráðherrar sem hafa fjallað um málið hafa skilað ákveðnum hugmyndum til mín. Þær eru til úrvinnslu í forsætisráðuneytinu og ég vænti þess að við getum lagt fram hugmyndir að slíkum breytingum nú á vormánuðum. Það er a.m.k. það sem við ætlum okkur.

Að því er varðar Hagstofuna þá er hún til umfjöllunar í því samhengi að Hagstofan er í dag sérstakt ráðuneyti en í þeim breytingum sem verða á Stjórnarráðinu í framtíðinni finnst mér fremur ólíklegt að svo verði áfram. En Hagstofan er mjög mikilvæg stofnun sem ber að efla frekar en hitt og gegnir miklu hlutverki í þjóðfélaginu. En það er skoðun mín að í framtíðarskipun Stjórnarráðsins sé ekki eðlilegt að Hagstofan sé sérstakt, sjálfstætt ráðuneyti.