Tekjuskattur

Þriðjudaginn 21. mars 2006, kl. 15:10:58 (6499)


132. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2006.

Tekjuskattur.

623. mál
[15:10]
Hlusta

Jón Kr. Óskarsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum. Ég get ekki látið hjá líða, hæstv. forseti, að koma á framfæri eftirfarandi þar sem hér er til umræðu frumvarp til laga um tekjuskatt.

Ég vildi óska þess innilega að hæstv. fjármálaráðherra stefndi að því að staða eldri borgara væri betri en nú er í sambandi við lækkun á tekjuskatti á lífeyrissjóðsgreiðslur. Við erum að greiða, hæstv. forseti, 36,7% af lífeyrissjóðsgreiðslum sem er að mínu mati mjög hátt vægt til orða tekið. Ég teldi að þessi skattur ætti að vera svipaður og fjármagnstekjuskattur er í dag, þ.e. um 10%. Landssamband eldri borgara hefur margoft ályktað um þessa lækkun. Við eigum þetta inni hjá íslensku þjóðinni og ég vonast heitt og innilega til þess, þar sem ég er nú elsti starfandi þingmaður þessa dagana, að þetta verði íhugað alvarlega af hæstv. fjármálaráðherra.