Tekjuskattur

Þriðjudaginn 21. mars 2006, kl. 15:14:42 (6502)


132. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2006.

Tekjuskattur.

623. mál
[15:14]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég ætla rétt að leggja orð í belg út af þeim umræðum sem hér urðu áðan um skattlagningu og afkomu eldri borgara í landinu. Skattalögin eru þannig útfærð að skattprósentan er ein fyrir alla að undanskildum unglingum sem hafa 6% skatt ef ég man rétt. Síðan er það persónuafslátturinn sem gildir fyrir alla.

Í sjálfu sér er ekkert undarlegt við það að eldri borgarar hafi beitt sér fyrir mikilli umræðu um stöðu sína að því er varðar skattlagningu og skerðingarreglur í þjóðfélaginu. Við í Frjálslynda flokknum höfum sérstaklega beint sjónum okkar að þeim skerðingarreglum sem eldri borgarar verða fyrir ef þeir fá viðbótartekjur, þ.e. aðrar tekjur en frá Tryggingastofnun, hvort sem það eru lífeyristekjur eða atvinnutekjur. Það verður að segjast eins og er að þegar saman eru lögð áhrifin af skerðingarreglunum sem snúa að Tryggingastofnun þar sem tekjur, úr lífeyrissjóði m.a., til eldri borgara valda því að bætur almannatrygginga lækka um 45% — þá er því miður niðurstaðan sú, vegna þess að eldri borgarar eru búnir að nýta persónuafslátt sinn við greiðslur frá Tryggingastofnun, að til viðbótar kemur skerðing sem nemur skattprósentunni eða 36,72%.

Þegar þessar tölur eru lagðar saman, annars vegar 4.500 kr. skerðing á bótum fyrir hverjar tíu þús. kr. sem eldri borgari á rétt á úr lífeyrissjóði og hins vegar til viðbótar 3.672 kr. í álagningu tekjuskatts stendur náttúrlega ekki mikið eftir, hæstv. forseti, eða rétt rúmar 1.800 kr., sem er rauntekjubreyting þessa aðila sem hefur annars vegar notið bóta Tryggingastofnunar og hins vegar viðbótartekna, hvort sem það eru tekjur eða greiðslur úr lífeyrissjóði.

Um þetta fyrirkomulag, hæstv. forseti, held ég að geti aldrei orðið friður við eldri borgara, það er algjörlega útilokað. Þess vegna höfum við í Frjálslynda flokknum bent á það, m.a. með tillögu hér í hv. Alþingi, að það þyrfti að líta á þessar skerðingarreglur og breyta þeim verulega. Við höfum lagt til að það væri ákveðin upphæð sem ekki kæmi til skerðingar á bótunum, ákveðin upphæð út úr lífeyrissjóði, og síðan yrði þá stighækkandi skerðingarregla þar til tekjur úr lífeyrissjóði hefðu náð 100 þús. kr. á mánuði hjá einstaklingi en þá væri aftur komið að þessari 45% skerðingu á tryggingabótum.

Ég hef litið svo á undanfarin missiri og ár að það yrði ekki hægt að ná neinni sátt við eldri borgara öðruvísi en að fara í þessar skerðingarreglur með einhvers konar svona lagi, að gera það að verkum að eldri borgari fái ekki þessar skerðingar eins og þær eru í dag, þ.e. haldi eftir rúmum 1.800 kr. af hverjum 10.000 kr. þar til hann er búinn að eyða tekjutryggingunni, heimilisuppbótinni og tekjutryggingaraukanum, en eins og allir vita skerða lífeyristekjur ekki grunnlífeyri hjá Tryggingastofnun, gamla ellilífeyrinn sem sumir kalla, 23 þúsund krónurnar. Það er ekki fyrr en komið er þangað niður í bótum Tryggingastofnunar sem eldri borgarar fara að borga eingöngu tekjuskatt af lífeyristekjunum, þ.e. 3.670 kr. fyrir hverjar 10.000. kr. En fram að því tapar eldri borgarinn 8.000 kr. rúmum af hverjum 10.000. kr. sem hann fær út úr lífeyrissjóði. Það gerist annars vegar í gegnum tryggingabæturnar, skerðingarreglurnar þar eru um 45%, og síðan til viðbótar skattprósentunni.

Úr því að við erum hér að ræða skattamál og ívilnanir í sambandi við það er rétt að vekja athygli á þessu máli enn á ný, ekki er vanþörf á. Mín lokaorð eru þau að ég tel að það náist enginn friður við Samtök eldri borgara í þessu landi með því að hafa málin í þeim farvegi sem þau eru nú, það verður að finna aðra lausn. Ef hæstv. fjármálaráðherra er með margar nefndir í gangi sem snúa að skattamálum held ég að hann ætti nú að tengja það við heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.