Vegabréf

Þriðjudaginn 21. mars 2006, kl. 16:17:04 (6513)


132. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2006.

Vegabréf.

615. mál
[16:17]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessar ágætu umræður. Hver bað um þetta? Hver átti frumkvæðið að því menn fóru út í að gefa út ný vegabréf á alþjóðavísu með þessum hætti. Frumkvæðið kemur í raun og veru frá Alþjóðaflugmálastofnuninni. Það er hún sem má segja að sé frumkvöðull í þessu efni. Síðan eru þjóðir að taka þetta upp og Schengen ríkin eru að gera þetta alveg án tillits til þess hvað Bandaríkjamenn er að gera. Allar þjóðir sem vilja halda uppi öflugri landamæravörslu telja að sú leið sem hér er farin sé nauðsynleg til þess að trygga sem best landamæraeftirlit og besta skráningu á fólki og annað slíkt sem eru nauðsynleg úrræði til að standa vel að landamæravörslu.

Varðandi orðið lífkenni þá er það orð sem við höfum tekið í notkun eftir ábendingu frá Íslenskri málstöð. Það er aðgreint frá orðinu lífsýni. Lífsýni er DNA sýni og annað slíkt. Ég veit ekki hvort það er alveg tæmandi talið það sem menn geta fellt undir lífkenni hér í greinargerð með frumvarpinu. En það er tvennt ólíkt, lífkenni og lífsýni.

Það hefur verið rætt um hvers vegna Útlendingastofnun eigi að gefa út vegabréf fyrir útlendinga og ferðaskilríki fyrir flóttamenn. Ástæðan fyrir því er sú að útgáfa vegabréfa fyrir útlendinga byggist á skilyrðum sem koma frá Útlendingastofnun og ferðaskilríki fyrir flóttamenn jafnframt. Því var talið eðlilegt að þetta yrði áfram á hendi Útlendingastofnunar sem hefur bestar forsendur til að standa að þessari útgáfu með hliðsjón af þeim skyldum sem henni ber að framfylgja til að sinna lögbundnum verkefnum sínum.

Í þessu felst enginn mismunun á neinn hátt heldur er þetta eins og eðlilegt er um verkaskipting á milli stofnana innan ríkisins. Þjóðskráin er útgefandi annarra vegabréfa vegna þess vegabréfin byggjast á samkeyrslu á þjóðskrá og þeim upplýsingum sem vegabréfshafinn leggur fram. Það á ekki við um útlendinga. Þeir eru yfirleitt ekki skráðir á þann veg þegar um þetta er að ræða.

Varðandi það sem segir í 4. gr. þegar menn eru að velta fyrir sér hvaða athugun fram skuli fara þá er þjóðskráin náttúrlega aðili sem þarf að fara, eins og hérna segir, að almennum reglum stjórnsýslulaga og verður að haga störfum sínum í samræmi við það. Það sem þarna er um að ræða — menn verða að lesa lagagreinina. Þar segir, með leyfi forseta:

„Heimilt er að gefa út vegabréf samkvæmt umsókn annars forsjárforeldris þegar hitt forsjárforeldri er ófært um að veita samþykki sitt vegna sjúkdóms, fjarvistar eða annarra sérstakra aðstæðna að undangenginni athugun á umræddum aðstæðum og mati á því hvort hætta sé á að barn verði fært úr landi með ólögmætum hætti.“

Þarna er verið að leggja áherslu á að það verða að vera mjög sérstakar aðstæður sem valda því að slíkt vegabréf sé gefið út og ber að árétta það. En það er náttúrlega ógjörningur líka að það að menn geti ekki gefið út vegabréfið standi í vegi fyrir að foreldri geti farið með barn og fengið vegabréf þegar þannig er ástatt eins og greinin gerir ráð fyrir. Þannig að meðalhófið í þessu er augljóst og það sem um er að ræða er að ef forsjárforeldri er ófært um að veita samþykki sitt þá leiði það ekki til þess að hitt foreldrið geti ekki farið til Þjóðskrár eða útgefanda vegabréfs og beðið um vegabréf handa barninu. Ég held að það væri verra ástand en að hafa þá heimild í lögum sem þarna er gert ráð fyrir enda verður henni náttúrlega ekki breytt nema samkvæmt orðanna hljóðan og þau eru ströng eins og menn sjá þegar þetta er lesið.

Ég veit ekki hvað hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson telur að ég verði lengi dómsmálaráðherra. Ég náttúrlega veit að ég nýt stuðnings hans til að vera það um mörg ár enn og þess vegna er erfitt fyrir mig að svara spurningunni um hvort ég sjái fyrir mér á næstunni, í tíð minni sem dómsmálaráðherra, að vegabréf verði hækkuð. Það er ekki inni í myndinni. Ef ég hefði talið að hækka þyrfti vegabréfin með útgáfu þeirra á nýjan hátt þá hefði það að sjálfsögðu komið fram. Okkar tilboð og okkar útboð báru það góðan árangur að við fengum tilboð og höfum staðið að þessu á svo skipulagðan og góðan hátt, eins og menn geta kynnt sér þegar þetta mál verður rætt í allsherjarnefnd og fengið upplýsingar um kostnað og hugmyndir sem við höfum um kostnaðinn og hvernig þetta dæmi allt lítur út núna, að þetta gekk það vel fyrir sig að við teljum að við getum selt þessi vegabréf á sama verði og þau sem eru útgefin núna.

En það er mjög athyglisvert þegar hugað er að greiðslu sem fólk er reiðubúið til að inna af hendi vegna kaupa á vegabréfum hve hátt hlutfall manna kemur á síðustu stundu og þarf að borga svokallað hraðgjald. Ef ég man rétt held ég að það sé um þrjátíu af hundraði. Þó man ég þetta ekki alveg. Ég er ekki með þessar tölur í hendi. En það er ótrúlega hátt hlutfall af þeim sem biðja um vegabréf sem koma á síðustu stundu og borga þess vegna mun meira fyrir það en ef þeir sýndu þá forsjálni að vera kannski vikunni fyrr og búa sig undir ferðir sínar með því að afla sér vegabréfs. Það virðist ekki vera kannski að menn séu mikið að hugsa um kostnaðinn við vegabréfin þegar þeir eru að halda í utanlandsferðir þótt það sé óhjákvæmilegt tæki sem menn þurfa að hafa í höndunum til að geta ferðast hindrunarlaust á milli landa. Ég vona svo sannarlega að okkur takist að afgreiða þetta frumvarp núna í vor svo unnt verði að standa við þetta allt fyrir okkar borgara.

Í 7. gr. frumvarpsins segir, með leyfi forseta:

„Opinberum stofnunum er heimilt að nota skilríkjaskrá við skilríkjaútgáfu. Þjóðskrá og lögreglu er heimilt að nota skilríkjaskrá til að bera kennsl á mann eða staðreyna að hann sé sá sem hann kveðst vera.“

Þetta er rætt aðeins í greinargerðinni þar sem segir, með leyfi forseta:

„Eðli máls samkvæmt þarf lögregla að hafa aðgang að upplýsingum um gögn sem liggja að baki útgáfu vegabréfs vegna starfa sinna við landamæraeftirlit. Unnt þarf að vera að staðreyna að vegabréfi hafi ekki verið breytt og að það sé í höndum þess einstaklings sem fékk það útgefið. Einnig getur lögregla þurft að bera kennsl á mann eða staðreyna að hann sé sá sem hann kveðst vera og til þess getur aðgangur að skilríkjaskrá verið nauðsynlegur.“

Þetta er eins einfalt og gegnsætt og verið getur. Síðan segir, með leyfi forseta“

„Þá er lagt til að áréttuð verði heimild til að birta erlendum stjórnvöldum upplýsingar úr skránni er varða glötuð og stolin skilríki. Í baráttunni gegn hryðjuverkum og alþjóðlegri afbrotastarfsemi hefur verið lögð aukin áhersla á að ríki skiptist gagnkvæmt á upplýsingum um glötuð og stolin vegabréf. Íslensk stjórnvöld taka nú þegar þátt í slíkum upplýsingaskiptum á grundvelli Schengen-samstarfsins og á vettvangi Interpol.“

Það eru fréttir um það í blöðum núna, ef ég sá rétt, að íslensk stjórnvöld eru að glíma við vanda af þessum toga. Þetta eru því allt viðfangsefni sem menn þurfa að huga að. Auðvitað væri hægt að ganga lengra í lögheimildum varðandi notkun á þessari skrá fyrir lögregluna. Ef þingmenn hafa áhuga á því þá er það nokkuð sem hægt er að ræða í allsherjarnefndinni. En þetta eru tillögur okkar. En þingmenn geta vafalaust, ef þeir vilja taka það upp við lögregluyfirvöld eða aðra, fengið upplýsingar um að það væri hægt að ganga lengra í þessu efni eins og öðrum.