Fæðingarorlofssjóður

Miðvikudaginn 22. mars 2006, kl. 12:04:53 (6516)


132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Fæðingarorlofssjóður.

424. mál
[12:04]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að treysta skuli undirstöðu byggðar í landinu og skapa jöfn skilyrði til atvinnu. Áhersla skuli lögð á að hagsmunir landsins felist í markvissu samstarfi höfuðborgar og landsbyggðar og gagnkvæmum skilningi. Jafnframt segir þar að stuðlað skuli að því að stjórnkerfið endurspegli breyttar aðstæður í þjóðfélaginu. Einkum verði horft til þess hvernig best megi nýta kosti upplýsingasamfélags og rafiðnaðarstjórnsýslu til að tryggja jafnt aðgengi borgarinnar að nauðsynlegum upplýsingum og þjónustu.

Eitt af einkennum vinnumarkaðar á Norðurlandi vestra er að atvinnuleysi meðal kvenna er fremur hátt hlutfallslega og jafnframt eru þar mjög fá störf í boði í samanburði við aðra landshluta. Þarna er í boði ódýrt húsnæði og þarna vilja menn auka fjölbreytni í störfum og sporna við þeirri einhæfni sem því miður einkennir nú orðið atvinnuframboð á landsbyggðinni.

Ég vil undirstrika að rökin fyrir flutningi þeirra starfa sem hér um ræðir eru margvísleg og samrýmast mjög vel hlutverkum félagsmálaráðuneytisins sem ráðuneyti félagsmála, atvinnumála, jafnréttismála og sveitarstjórnarmála, auk þess sem samlegðaráhrif eru augljós.

Spurt er hvernig eigi að sinna þjónustunni þaðan og er þá vísað til Húnavatnssýslna. Í fyrsta lagi vil ég segja að stefnt er að því að svæðisvinnumiðlanir um land allt í öllum landsfjórðungum og miðlun höfuðborgarsvæðisins muni veita ráðgjöf og þjónustu þegar fæðingarorlofsgreiðslur eru annars vegar. Alls er hér um átta starfsstöðvar að ræða enda þótt útreikningurinn muni fara fram miðlægt á einum stað. Þjónustan verður bætt frá því sem nú er, a.m.k. að þessu leyti. Það getur vel komið til greina að í Reykjavík verði t.d. sérfræðingateymi auk þess sem fjölmargir starfsmenn munu veita þjónusturáðgjöf í hverjum landshluta fyrir sig. Reynslan hefur sýnt að mjög margir foreldrar leita í dag til Tryggingastofnunar ríkisins vegna foreldra- og fæðingarorlofsgreiðslna með því að senda tölvupóst eða hringja. Ef svo er breytir engu hvar á landinu fólk er statt. Rafræn stjórnsýsla eykst ár frá ári og er það vel. Það er mjög æskilegt fyrir almenning að geta leitað eftir þjónustu hins opinbera án þess að þurfa að taka sér frí frá vinnu eða skóla til að heimsækja tilteknar stofnanir og eyða í það bæði tíma og peningum.

Félagsmálaráðuneytið hefur m.a. haft forgöngu um tilraunaverkefni þar sem boðið er upp á netspjall við starfsfólk í afgreiðslu og sérfræðinga og ég sé fyrir mér að boðið verði upp á slíkt við upplýsingagjöf, ráðgjöf og þjónustu vegna greiðslna í fæðingarorlofi. Ný íslensk rannsókn sýnir að um 90% íslenskra heimila í dag hafa yfir tölvum að ráða og um 84% heimila eru nettengd. Þar fyrir utan hafa fjölmargir aðgang að tölvu á vinnustöðum og opinberum stöðum. Þetta hlutfall er eðli málsins samkvæmt að öllum líkindum enn hærra meðal þess hóps sem sækir um foreldra- og fæðingarorlof. Stjórnvöldum ber skylda til að taka mið af þessari þróun. Skattyfirvöld hafa þróað starfsemi sína og komið til móts við almenning þar sem nú þarf ekki lengur að fara með skattframtal á skattstofuna. Það er til mikillar fyrirmyndar og samskipti vegna fæðingar- og foreldraorlofs varða hliðstæðar upplýsingar og gögn.

Þá vil ég undirstrika það að með því að flytja umsýslu og fæðingar- og foreldraorlof til Vinnumálastofnunar verði náð samhæfingu í umsýslu vegna greiðslna til foreldra langveikra barna og greiðslna atvinnuleysistrygginga og umsýslu atvinnuleysisbóta en á næstu vikum verður lagt fyrir Alþingi frumvarp þess efnis. Allt eru þetta vinnumarkaðstengdar greiðslur og mjög æskilegt að samhæfa og samnýta þekkingu og tækni við útreikning og útgreiðslu bóta.

Í sem stystu máli má því segja að við ætlum okkur að samræma framkvæmd við allar þessar greiðslur, nýta okkur tæknina og samlegðaráhrif og gera arðgreiðslur skilvirkari. Ég vænti þess að okkur takist með þessu að byggja upp sértengingu og hæfni til að vinna þessi verkefni í Húnavatnssýslum og víðar.

Hve mikið er áætlað að þessar breytingar muni kosta? Undirbúningur þeirra breytinga sem hér eru til umræðu er á hendi Vinnumálastofnunar í góðri samvinnu við Tryggingastofnun ríkisins. Fyrir liggur að Tryggingastofnun mun sinna verkefninu á grundvelli gildandi þjónustusamnings út árið 2006 og er samningur með gagnkvæmum 12 mánaða uppsagnarfresti. Sá tími verður nýttur til að ganga frá því hvort og þá hvaða starfsmenn flytjast með verkefninu, hvaða starfsmenn þurfi að þjálfa á tímabilinu frá ágúst til október nk. og hvaða húsnæði verður fyrir valinu. Ljóst er að samlegðaráhrif verða þegar samnýtt verði umsýsla vegna greiðslna fæðingar- og foreldraorlofs, greiðslna til foreldra langveikra barna og greiðslna til atvinnuleysistrygginga sem nú eru yfirleitt tekjutengdar. Í því felst sparnaður bæði til lengri og skemmri tíma. Ég mun koma nánar að þessu í síðara svari mínu.