Fæðingarorlofssjóður

Miðvikudaginn 22. mars 2006, kl. 12:12:53 (6519)


132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Fæðingarorlofssjóður.

424. mál
[12:12]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég geri það sama og aðrir hv. þingmenn sem hér hafa komið upp. Ég nota tækifærið þegar ég get loksins hælt ríkisstjórninni fyrir eitthvað sem gert er jákvætt í byggðamálum og þetta er sannarlega dæmi um slíkt, að flytja opinber störf héðan af höfuðborgarsvæðinu og út á land. Það er hið besta mál. Og að flytja starfsemi Fæðingarorlofssjóðs norður í Húnavatnssýslu er bara hið besta mál vegna þess að eins og hér hefur komið fram hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni, þingmanni þess kjördæmis þá er ekki mikið um opinber störf á þessum svæðum og því ber að fagna þessu.

Jafnrétti er nefnilega þannig að það er ekki bara jafnrétti karla og kvenna. Það er líka jafnrétti milli landsbyggðarbúa og höfuðborgarbúa. Og þegar ég skoða 2. spurninguna, þ.e. hvernig eigi að sinna slíkri þjónustu úr Húnavatnssýslunni, þá hlýtur svarið að vera að í rafrænu samfélagi sé það nákvæmlega eins og héðan frá höfuðborgarsvæðinu, þetta virkar í báðar áttir. Þess vegna vil ég nota þetta tækifæri og þakka fyrir og mæla með því sem hér hefur verið gert en betur má ef duga skal. Það eru miklu fleiri störf á höfuðborgarsvæðinu sem væri full ástæða til að flytja út á land og vista þar og væri hægt að vinna jafnvel fullt eins vel ef ekki betur en hér á höfuðborgarsvæðinu.