132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[17:21]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni ansi merkilegt mál, sem ég held að verðskuldi a.m.k. einhverja umræðu og eitthvað annað en tóman þingsal, þ.e. frumvarp um að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar. Í nefndarálitinu kemur fram að fjórir hv. þingmenn undirrita nefndarálitið með fyrirvara en ekki verður séð á nefndarálitinu í hverju fyrirvarinn er fólginn og vantar skýringar á því. Ég mundi, virðulegi forseti, vilja óska eftir því að þeir þingmenn geri grein fyrir fyrirvara sínum sem setja fyrirvara við stuðning sinn við málið, en þeir eru hv. þingmenn Ágúst Ólafur Ágústsson, Sigurjón Þórðarson, Guðrún Ögmundsdóttir og Kjartan Ólafsson.

Það sem ég vildi aðeins ræða í þessu máli eru vatnsréttindin. Frumvarpið felur það í sér að verið er að færa Landsvirkjun eignarrétt yfir réttindunum í stað þess ástands sem er í dag að fyrirtækið hefur nýtingarrétt að þeim réttindum. Því er borið við að við stofnun Landsvirkjunar hafi verið ætlunin af hálfu ríkisins að þessi réttindi væru færð inn í fyrirtækið sem eign og hefðu verið reiknuð sem framlag ríkisins, væntanlega þá hærra metin vegna þess að þau væru eign en ekki nýtingarréttur.

Óbyggðanefnd komst að þeirri niðurstöðu að þetta væru ekki eignarréttindi í hendi Landsvirkjunar heldur aðeins nýtingarréttur. Það er rakið mjög skilmerkilega í greinargerð með frumvarpinu og kannski ástæðulaust að vitna til þess rökstuðnings, en það er skýr niðurstaða óbyggðanefndar að þetta sé þjóðlenda.

Virðulegi forseti. Í þeim gögnum sem ég hef farið í gegnum sé ég ekki skýran rökstuðning fyrir þeirri fullyrðingu að það hafi í upphafi verið ætlun ríkisins að veita þessi réttindi inn í Landsvirkjun sem eign. Ég hef einmitt verið að lesa tilvitnanir um þetta og þar stendur ekki, svo ég komi auga á, að þau réttindi sem ríkið leggur fram til Landsvirkjunar séu eignarréttindi. Það stendur bara að þetta séu vatnsréttindi og það er engin mótsögn fólgin í því þótt vatnsréttindi séu nýtingarréttur en ekki eignarréttur. Ég fæ því ekki séð rökstuðninginn fyrir því að um eignarréttindi eigi að vera að ræða í þessum vatnsréttindum. Mér þætti vænt um ef framsögumaður nefndar gæti þá bent mér á það í þessum gögnum hvar það kemur fram með ótvíræðum hætti að það hafi verið í þeim skjölum sem ríkið gekk frá á sínum tíma við stofnun Landsvirkjunar ætlunin að þessi réttindi væru eignarréttindi en ekki nýtingarréttindi.

Þetta skiptir auðvitað máli vegna þess að ef um er að ræða nýtingarréttindi sem fyrirtækið hefur en þjóðin hins vegar á réttindin, þá er það önnur staða en ef fyrirtækið ætti réttindin. Þá er auðvitað eðlilegt að fyrirtækið greiði eigandanum að réttindunum, þ.e. þjóðinni, gjald fyrir afnot af þeim réttindum eða gjald fyrir nýtinguna. Mér finnst að gera þurfi svolitla grein fyrir þeim þætti málsins hvers vegna ríkisstjórnin velur að leggja fram frumvarp um að gefa Landsvirkjun þessi eignarréttindi í stað þess að halda eignarréttindunum þar sem þau eru og hafa alltaf verið, nota bene, gáum að því að þau réttindi sem um er rætt hafa ævinlega verið almenningseign, það er nefnilega niðurstaða málsins.

Jafnvel þó að unnið væri út frá því að ríkið hafi ætlað fyrirtækinu að eiga þessi réttindi þá er ekkert endilega eini valkosturinn í stöðunni að færa fyrirtækinu réttindin að gjöf. Það má líka meta réttindin og gera dæmið upp að nýju ef aðrir eigendur fyrirtækisins telja sig hlunnfarna við að þessi tilteknu réttindi séu nýtingarréttindi en ekki eignarréttindi. Það kemur hvergi fram í gögnum sem liggja fyrir þinginu, frumvarpinu eða gögnum sem hafa verið lögð fram fyrir hv. allsherjarnefnd, hvert verðmæti þessara réttinda er. Ég spyr því, virðulegi forseti: Hvert er verðmæti þessara eignarréttinda sem verið er með þessu frumvarpi að færa Landsvirkjun sem eign? Einn milljarður, tveir milljarðar, fimm eða tíu, hvert er þetta verðmæti? Af hverju athugaði hv. allsherjarnefnd við athugun málsins ekki hvert verðmæti réttindanna er? Það virðist ekki vera — ég er búinn að láta kanna þetta fyrir mig og ekki er að finna neinar upplýsingar um mat á þeim verðmætum.

Ef hv. framsögumaður allsherjarnefndar hefur ekki mat á þessum eignum óska ég eftir því að þess mats verði aflað og það kynnt fyrir þinginu og annaðhvort gerum við það fyrir 3. umr. málsins eða frestum umræðu um málið þar til fyrir liggur mat á verðmæti þessara réttinda. Ég held að það sé algert grundvallaratriði að þingheimi sé gerð grein fyrir hvert verðmæti þessara eignarréttinda er sem verið er að færa úr almannaeigu yfir í eigu Landsvirkjunar með frumvarpi þessu. Ég tel að ekki sé forsvaranlegt að gera þetta frumvarp að lögum án þess að fyrir liggi sæmilega vandað mat á þeim verðmætum. Það hlýtur að vera hægt að nálgast það með tiltölulega þægilegum hætti því að þeir sem hafa komið að þessu máli og knýja á um að frumvarpið sé flutt hljóta að hafa gert sér einhverja hugmynd um verðmæti umræddra réttinda.

Ég gæti breytt spurningunni og spurt: Hvað þarf ríkið að greiða Reykjavíkurborg og Akureyrarkaupstað ef þessi eignarréttindi verða ekki færð til Landsvirkjunar til að viðhalda óbreyttum hlutföllum í eigendahópnum? Það liggur ekkert svar fyrir við þessari spurningu.

Ég held, og tel mig reyndar lesa það út úr þeim gögnum sem hér fylgja með og sérstaklega greinargerð með frumvarpinu, að það sé reyndar ekki hægt að færa fyrir því rök að í upphafi málsins hafi verið gert ráð fyrir að þessi réttindi færu inn í Landsvirkjun sem eignarréttindi. Ég tel það, virðulegi forseti, og sýnist á þeim gögnum sem hér liggja fyrir að erfitt sé að færa rök fyrir þeim fullyrðingum að þessi réttindi eigi að vera eignarréttindi en ekki nýtingarréttindi. Þess vegna óskaði ég eftir að hv. framsögumaður nefndarinnar benti á hvar rökstuðningurinn væri fyrir þeirri fullyrðingu að þessi réttindi hefðu átt að fara sem eignarréttindi inn í fyrirtækið.

Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að þetta skiptir gríðarlega miklu máli til framtíðar litið af þeirri einföldu ástæðu að það liggur fyrir að mikill áhugi er á því að selja Landsvirkjun. Ég get nefnt yfirlýsingar hæstv. iðnaðarráðherra frá því á síðasta ári sem lýsti því yfir að innan fárra ára væri stefnt að því að selja a.m.k. hluta af Landsvirkjun til annarra aðila en opinberra og jafnvel erlendra aðila. Síðan hefur bæst í hópinn hæstv. utanríkisráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, sem hefur lýst þeim vilja sínum að selja Landsvirkjun. Þó svo að engin ákvörðun hafi verið tekin um það núna að einkavæða Landsvirkjun þá eru þær hugmyndir uppi. Þau áform eru uppi og reyndar ekki ný af nálinni því að í frumvarpi sem lagt var fram á Alþingi fyrir tíu árum, um breytingar á lögum um Landsvirkjun, er að finna greinargerð nefndar sem eigendur Landsvirkjunar höfðu sett á laggirnar þar sem m.a. var gerð úttekt á möguleikanum á því að selja erlendum aðilum Landsvirkjun.

Við verðum því að gera ráð fyrir að á næstu árum verði a.m.k. áform um að selja Landsvirkjun úr höndum opinberra aðila, annaðhvort að hluta eða að öllu leyti. Ef við horfum til þess tíma, ég skal ekki segja hve langt fram í tímanum, hvort það eru fáein ár eða áratugur, ég mundi halda fáein ár, sem það gæti hafa gerst að búið væri að einkavæða Landsvirkjun að fullu, þá selja menn allt sem fyrirtækið á. Þá mundu menn m.a. selja þau eignarréttindi sem verið er að færa Landsvirkjun með þessu frumvarpi. Í ljósi þess spyr ég, virðulegi forseti: Eigum við þá að stíga það skref að færa vatnsréttindin í Þjórsá við Búrfell til Landsvirkjunar sem eignarréttindi eða eigum við að viðhalda því sem verið hefur alla tíð að þessi réttindi séu almannaeign og fyrirtækið greiði eiganda þeirra, almenningi eða þjóðinni, afnotagjald fyrir þau réttindi? Þannig að ef til þess kæmi að fyrirtækið yrði selt tækju nýir eigendur við nýtingarréttinum en þeir mundu líka greiða eigandanum afnotagjald fyrir nýtingu á þessari auðlind. Að mínu viti snýst málið um þetta, virðulegi forseti. Þetta er hinn pólitíski vinkill á málinu, sem lagt er upp fyrir Alþingi á þann veg að verið sé að efna það sem menn ákváðu fyrir hálfri öld, eða rúmum 40 árum, þegar Landsvirkjun var stofnsett. Sú framsetning málsins segir ekki nema mjög lítinn hluta af sögunni. Ég dreg reyndar í efa að áform hafi verið um að þessi réttindi yrðu færð Landsvirkjun sem eignarréttindi, a.m.k. spyr ég um sönnur fyrir þeim fullyrðingum. En hvort heldur er þá er aðalatriðið í mínum huga, til framtíðar litið, að þessi eignarréttindi verði eign þjóðarinnar og að þeir sem nýti þau réttindi greiði henni afnotagjald fyrir þau not. Það finnst mér vera aðalatriðið og kjarninn í þessu máli ef við lítum til framtíðar, af því að ég geri alveg ráð fyrir að áform um sölu Landsvirkjunar verði uppi á næstu árum og e.t.v. verður því hrint í framkvæmd.

Mér finnst að við eigum í stórum dráttum að fara með þessi réttindi eins og við höfum ákveðið að fara með aðrar auðlindir þjóðarinnar, hvort heldur þær eru í hafinu eða í landinu eða í vatnsaflinu, að halda þeim í eign þjóðarinnar og ganga út frá því að þeir sem nýta þá eign, einkaaðilar eða aðrir, greiði fyrir þau not til ríkisins sem handhafa eða fulltrúa eigendanna. Mér líst ekki vel á þá leið að færa þessi réttindi út sem eignarréttindi. Ef við föllumst á það í þessu tilviki að eðlilegt sé að þessi vatnsréttindi verði eignarréttindi í einkaeigu erum við auðvitað búin að fallast á sömu útfærslu með önnur réttindi varðandi vatnsaflið. Og ég sé ekki eðlismun á þeirri pólitísku afstöðu og því t.d. að einkavæða fiskimiðin, þannig að þar verði ekki bara um afnotarétt að ræða eins og kveðið er á um í lögum í dag heldur eignarrétt. Við vitum að útvegsmenn hafa verið að sækja í sig veðrið á síðustu árum og gera kröfu til þess að fá eignarrétt á fiskstofnunum við landið. Ég minni á háværar kröfur um það á síðasta þingi LÍÚ og áform sem þar var lýst um að höfða mál á hendur íslenska ríkinu til þess að fá viðurkennd fyrir dómi eignarréttindi útvegsmanna á fiskstofnunum í stað afnotaréttar. Þessi pólitíska spurning fer því víða í gegnum þjóðfélagið. Ég vek athygli á að í þessu frumvarpi er í raun og veru verið að gera breytingu á þeirri stefnu sem ég tel að menn hafi fylgt í þessum efnum í þá átt að færa þessi réttindi til einkaeignar. Ég vildi vekja athygli á þessu innihaldi frumvarpsins og setja fram mjög sterkan fyrirvara af minni hálfu og miklar efasemdir um að rétt sé að færa Landsvirkjun þessi vatnsréttindi sem eign. Á hinn bóginn er það sjálfsagt og að mínu viti í samræmi við þá samninga sem menn vitna hér til að að fyrirtækið hafi nýtingarrétt.

Virðulegi forseti. Ég vildi vekja athygli á þessu sjónarhorni í málinu og kalla eftir þeim grundvallarupplýsingum sem mér finnst að liggja þurfi fyrir áður en við afgreiðum þetta mál. Hvert er verðmatið á þessum réttindum? Hvað er þessi eign metin í verði hjá þeim sem knýja á um þessar breytingar? Það hlýtur að sjást t.d. í bókum Landsvirkjunar hver þessi eign er. Hafi þessi réttindi verið færð í bækur Landsvirkjunar sem eign hlýtur að vera hægt að finna útreikninga á því. En þá hafa menn líka verið að greiða af þessari eign, þá hefur Landsvirkjun t.d. greitt eigendum sínum arð út frá þessari eign á ári hverju. Fyrirtækið hefur þá verið að greiða eigendum sínum of háar arðgreiðslur ef þessi réttindi hafa verið metin til eignar í bókum fyrirtækisins sem síðar kemur í ljós að eru ekki eignarréttindi. Fyrirtækið hlýtur þá að vera búið að færa það út úr efnahagsreikningi sínum að um eignarréttindi sé að ræða því að álit óbyggðanefndar kom fram árið 2002 eða fyrir u.þ.b. fjórum árum.

Þetta eru fjárhæðir sem skipta verulegu máli. Ég er með svar við fyrirspurn sem ég bar fram fyrir tveimur árum um Landsvirkjun og þar kemur fram að á verðlagi 2003 námu arðgreiðslur fyrirtækisins til eigenda sinna frá árinu 1985 til 2003, eða á 18 ára tímabili, nærri 3 milljörðum kr. Þetta eru háar tölur. Fyrirtækið greiddi síðan ábyrgðargjald af ábyrgðum sínum sem eigendurnir gengust í og það tekur auðvitað mið af eignunum og það nam svipaðri fjárhæð eða 2,7 milljörðum kr. Fyrirtækið hefur því verið að greiða eigendum sínum gríðarlega háar fjárhæðir sem væntanlega eru þá hærri en efni standa til ef þær hafa verið reiknaðar af eign sem síðar reyndist ekki vera fyrir hendi og þá ættu eigendurnir væntanlega að skila fyrirtækinu þeim peningum til baka.

Það er svo önnur saga sem gaman væri að rifja hér upp hvernig eigið fé Landsvirkjunar verður til að öðru leyti en ég fer ekkert út í þá sögu því að hún tengist ekki þessu frumvarpi um þessi tilteknu vatnsréttindi í Þjórsá við Búrfell. En þar finnst mér vanta upplýsingar um hvert verðmætið er á þeim vatnsréttindum og þar vil ég vara alvarlega við þessu frumvarpi, að stíga það skref að færa Landsvirkjun vatnsréttindin sem eign. Ég vil halda þeim hjá ríkinu fyrir hönd þjóðarinnar, sérstaklega með þeim rökstuðningi að þegar horft er til framtíðar er líklegt að fyrirtækið verði selt til einkaaðila og þá er skynsamlegt að réttindin séu í eigu þjóðarinnar og að þeir sem munu nýta þau greiði henni gjald fyrir þau not.