132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[17:44]
Hlusta

Frsm. allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að mér finnst hv. 7. þm. Norðvest. lesa fullmikið út úr þessu tiltölulega einfalda frumvarpi og nálgast það með flóknari hætti en efni standa til. Frumvarpið er mjög einfalt að gerð og felur það í sér að forsætisráðherra sé heimilt að afsala til Landsvirkjunar þeim réttindum sem vísað er til í 3. tölul. a-liðar 2. gr. sameignarsamnings ríkisins og Reykjavíkurborgar um Landsvirkjun frá 1965. Þegar litið er til þess ákvæðis segir þar:

„Vatnsréttindi vegna 210 MW virkjunar í Þjórsá við Búrfell, ásamt landi, sem til þarf vegna virkjunarinnar og réttindi til nauðsynlegra aðgerða ofar í ánni, vegna þessarar virkjunar.“

Það á því ekki að leika neinn vafi á því hvað er þarna undir. Þarna er um að ræða vatnsréttindi og land sem samið var um 1965 að gengi til Landsvirkjunar. Nú hefur komið í ljós í niðurstöðum óbyggðanefndar að formgallar hafi verið á forsendum þeirrar ákvörðunar sem tekin var 1965 og verið er að leiðrétta það með þessu frumvarpi. Mér finnst því í sjálfu sér ástæðulaust að blanda inn í þetta álitamálum sem varða þjóðareign eða nýtingarrétt á einstökum auðlindum í þessu sambandi. Það er fyrst og fremst verið að gera þarna ákveðna lagaleiðréttingu til að tryggja að sá vafi sem vissulega kom upp í kjölfar niðurstöðu óbyggðanefndar verði ekki til frambúðar.