132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[18:10]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er það. Af þeim gögnum sem liggja fyrir frá óbyggðanefnd og ríkislögmanni, þ.e. tilvitnun í ríkislögmann, verður best séð að niðurstaða þeirra sé að það sem ríkið ætlar að leggja inn í púkkið í upphafi hafi aldrei verið meira en nýtingarrétturinn. Það hafi aldrei staðið til að eignarréttindin færu inn í Landsvirkjun.

Þess vegna segir í áliti ríkislögmanns að eignarhlutföllum sé ekki raskað þó óbyggðanefnd úrskurði eignarréttinn hjá ríkinu vegna þess að réttindin áttu aldrei að fara til Landsvirkjunar. Það er auðvitað álit sem verður að taka alvarlega. Ríkislögmaður kemur fram fyrir hönd ríkisins í málum af þessum toga svo við getum ekki litið fram hjá því eða hunsað það álit, og ég tek fullt mark á því.

En mér finnst að vísu slæmt að hafa ekki álit hans undir höndum þannig að maður geti lesið það beint og þurfi ekki að lesa það í gegnum greinargerð borgarlögmanns til borgarstjóra, sem vitnar í þetta álit.

En þetta er réttur skilningur hjá hv. þingmanni. Ég held að málið sé svona vaxið miðað við þau gögn sem fyrir liggja.