132. löggjafarþing — 96. fundur,  29. mars 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[16:57]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Þær athugasemdir sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson gerði grein fyrir áðan komu fram, réttilega, við 2. umr. málsins í umræðum hér í gær. Það er rétt að fram komi að ég lýsti því í þeirri umræðu sem framsögumaður nefndarinnar í þessu máli að ég teldi að hv. þingmaður læsi hugsanlega fullmikið í frumvarpið miðað við það sem efni þess gæfi tilefni til. Hér er um að ræða frumvarp sem felur það í sér að staðfesta skýrt réttarástand og eignarheimildir sem gengið var frá við stofnun Landsvirkjunar fyrir rúmum 40 árum þannig að ekki væri hugmyndin að fara í neina nýja eignayfirfærslu, heldur fyrst og fremst að staðfesta að þær yfirlýsingar sem þá voru gefnar og það framsal réttinda sem þá átti sér stað með samningi aðila væri staðfest. Sú hefur verið nálgun okkar í allsherjarnefnd í þessu máli og á þeirri forsendu var málið afgreitt út úr allsherjarnefnd.

Hv. þingmaður hefur komið fram með ný sjónarmið í þessu máli, sem ekki höfðu heyrst áður í þessari umræðu, og jafnframt óskað eftir upplýsingum. Ég sem framsögumaður í málinu mun taka það upp á næsta fundi allsherjarnefndar og leggja til að málið verði tekið þar aftur til athugunar til þess að fara yfir þessar athugasemdir og vonandi greiða úr þeim sjónarmiðum sem upp hafa komið þannig að 3. umr. geti hafist án þess að einhverjir þættir séu þar óvissir. Þess vegna mun ég leggja til í allsherjarnefnd að þetta verði aftur tekið til meðferðar. Þó ítreka ég þá persónulegu skoðun mína að ekki sé tilefni til að hafa þær áhyggjur sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur. En það er sjálfsagt að fara yfir málið á vettvangi nefndarinnar.