Staðan í hjúkrunarmálum

Fimmtudaginn 30. mars 2006, kl. 10:45:06 (6891)


132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Staðan í hjúkrunarmálum.

[10:45]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Hér hafa tveir ráðherrar bent hvor á annan og það er auðvitað alveg hlálegt. Þetta eru ráðherrar sem bera ábyrgð á málaflokknum, á heilbrigðisþjónustunni, á því að eldra fólk fái mannsæmandi umönnun og að greidd séu mannsæmandi laun fyrir þá umönnun sem eldra fólk fær á ævikvöldi sínu.

Hvað haldið þið, hv. þingmenn, við hér í þessum sal, að það kosti fyrir það fólk sem nú er í setuverkfalli að lifa? Þetta fólk er með rúmar 100 þús. kr. í laun á mánuði og það er ekki einu sinni það sem fólk hefur til ráðstöfunar heldur í grunnlaun áður en nokkuð er greitt eða nokkuð er tekið af í skatta og skyldur, því að þetta er fólk sem lendir í skatti. Við skulum bara átta okkur á því að hér er ríkisstjórn með úrelt sjónarmið. Það skiptir engu máli að hér er um einkafyrirtæki að ræða sem kjarasamningar eru gerðir við á frjálsum markaði. Það skiptir bara máli að sjúkraheimilin okkar og hjúkrunarheimilin séu starfhæf og að þar séu greidd mannsæmandi laun fyrir alla. Ef það er ekki gert sendum við þar með tóninn því fólki sem dvelur á hjúkrunarheimilum, því fólki sem hefur borið uppi þetta samfélag okkar áratugina hér á undan, borið uppi það samfélag sem við nú njótum. Þetta eru úrelt sjónarmið þessarar ríkisstjórnar. Þessi ríkisstjórn er úrelt og ætti auðvitað að víkja. Hún á ekki að láta svona hluti gerast í okkar samfélagi.