Mælingar, mæligrunnar og vigtarmenn

Fimmtudaginn 30. mars 2006, kl. 15:22:28 (6946)


132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Mælingar, mæligrunnar og vigtarmenn.

620. mál
[15:22]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst þetta í sjálfu sér ekki hafa svo mikið að gera með fiskveiðistefnuna sjálfa. Það er eiginlega meira samkeppnisumhverfið sem deilt hefur verið um. Það er líka umhugsunarefni vegna þess hvaða hlutverk þetta ráð sem er nefnt í lagafrumvarpinu á að hafa þegar maður les 41. gr. þeirrar reglugerðar sem ég vitna í um vigtun sjávarafla en þar stendur, með leyfi forseta:

„Sérstök samráðsnefnd, skipuð einum fulltrúa tilnefndum af Hafnasambandi sveitarfélaga, einum tilnefndum af Fiskistofu og einum tilnefndum af samgönguráðherra, auk formanns sem skipaður er af sjávarútvegsráðherra án tilnefningar skal fjalla um álita- og ágreiningsmál varðandi vigtun afla.“

Ég tel að það ætti að skoða hvort ekki eigi að vera betra samræmi í því sem hið opinbera er að gera hvað þessa hluti varðar þannig að það sé ein heildarregla sem menn fari eftir. Auðvitað þarf séraðferðir í sjávarútveginum og allt það. Ég er ekki að halda öðru fram. Ég held því hins vegar fram að þegar tæknin hefur gert það kleift að ganga skýrt frá því að afli sé veginn á svipuðu stigi hjá þeim aðilum sem eru að keppa í greininni, þá eigi að taka þá tækni upp og ekki eigi að mismuna aðilum með þeim hætti sem þeir telja sér mismunað, vegna þess að sumir í fiskvinnslunni þurfi ekki að vigta afurðir sínar fyrr en eftir á en aðrir gera það þegar fiskinum er landað óunnum. Ég spyr þess vegna: Vantar ekki að hægt sé að snúa sér til þessa ráðs með að úrskurða um hvenær skuli taka upp nýja tækni?