Endurskoðun jarðalaga vegna uppkaupa á jörðum

Mánudaginn 03. apríl 2006, kl. 15:30:19 (7020)


132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Endurskoðun jarðalaga vegna uppkaupa á jörðum.

[15:30]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. landbúnaðarráðherra lýsi því yfir að hann ætli að endurskoða jarðalög í þessu ljósi, til að stemma stigu við raðuppkaupum á jörðum, að leggja fé í jarðir sem verða síðan ekki í búsetu í stórum stíl. Þó tel ég alls ekki að ganga eigi eins langt og Danirnir gera. Hæstv. landbúnaðarráðherra vísaði til þeirra laga og væri fróðlegt að heyra sjónarmið hans um hve stífar ábúðarskyldur eða eignarskyldur ættu að hvíla á jörðum sem menn kaupa, t.d. um hve margar jarðir viðkomandi geti átt. Þetta hefur mikil áhrif á búsetu um allt land.

Um leið og jákvæð áhrif verða, að jarðeigendur geti losað jarðir úr eign og margir ástunda tvöfalda búsetu þá þarf jafnframt að samræma sjónarmiðin. Sú þróun sem orðið hefur af miklum krafti á undanförnum fimm árum er að verð á jörðum hefur hækkað um 100% og 50% meira selst af jörðum. Það þarf að finna leiðir til að samræma sjónarmiðin og að því leyti fagna ég yfirlýsingu hæstv. landbúnaðarráðherra þótt ég vildi heyra nánar af sjónarmiðum hans til (Forseti hringir.) breytinga á búsetuskilyrðum.