Endurskoðun jarðalaga vegna uppkaupa á jörðum

Mánudaginn 03. apríl 2006, kl. 15:32:49 (7022)


132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Endurskoðun jarðalaga vegna uppkaupa á jörðum.

[15:32]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég held að ábúðarskylda eins og var í gömlu lögunum komi alls ekki til greina. Hún er úrelt fyrirbrigði en þetta er blóðug þróun, segja margir bændur. Hún þó vissulega jákvæð líka og um margt glæsileg. Hún hefur skuggalegar hliðarverkanir.

Ég held að hæstv. landbúnaðarráðherra þurfi, um leið og hann tekur undir að endurskoða þurfi þessi ákvæði jarðalaganna, að senda þeim sem ástunda eða ætla sér að ástunda stórfelld raðuppkaup á jörðum, til að festa í þolinmótt fjármagn, og eins þeim bændum sem hyggjast stunda hefðbundinn búskap og vilja og þurfa að kaupa sér aukið jarðnæði, skýrari pólitísk skilaboð en hann gerir hér. Hann tekur undir að endurskoða þurfi lögin með það að markmiði að þrengja með einhverjum hætti ákvæði um búsetu eða koma í veg fyrir svokölluð raðuppkaup á jörðum með hinum skuggalegu og blóðugu hliðarverkunum fyrir hefðbundinn búskap. Ég skora því á hæstv. ráðherra að tala örlítið skýrar varðandi þessi mál.