Viðarnýtingarnefnd

Miðvikudaginn 05. apríl 2006, kl. 18:22:52 (7265)


132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Viðarnýtingarnefnd.

601. mál
[18:22]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ísólfur Gylfi Pálmason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. landbúnaðarráðherra fyrir svarið og fagna því að sjálfsögðu hvað gert hefur verið. Ég vildi þó sjá að menn gerðu enn þá meira. Það er auðvitað mjög nauðsynlegt að gera áætlun um hvernig beri að nýta þennan trjávið í framtíðinni því ég veit til þess að t.d. á Mógilsá og í Heiðmörk og á Hallormsstað er þegar farið að fella tré og þar liggja þau eða er staflað upp og trjáviðurinn er ekki nýttur sem skyldi. Ég geri mér mjög glögga grein fyrir því að allt tekur þetta sinn tíma og það er að verða ákveðin þróun í þessum efnum en við þurfum líka að nýta þennan tíma vel vegna þess að hér er um heilmikil náttúruauðæfi að ræða. Við gætum verið að spara gjaldeyri eða skapa atvinnu og það eru ýmis verkefni sem tengjast þessu sem eru spennandi. Þar má t.d. nefna verkefni sem eru í skólum landsins og heita „Lesið í skóginn“ sem verða til þess að unga fólkið okkar gerir sér grein fyrir því hverju skógurinn getur skilað. Hér eru líka félagasamtök eins og Félag trérennismiða sem eru að framleiða mjög fallega listmuni úr íslenskum trjáviði. Ég tel að Skógrækt ríkisins verði að hafa alveg ákveðið frumkvæði í þessum efnum. Við þurfum líka að fjárfesta í vélum, stórvirkum tækjum sem eru til þess fallin að fella tré. Ég hef átt þess kost að vera í Svíþjóð og skoða slík tæki, það tekur kannski ekki nema eina og hálfa mínútu að fella stórt tré og fletta af því greinunum. Þetta er nokkuð sem er nauðsynlegt að kaupa hérna á Íslandi og fara að þróa þessi mál vegna þess að hér er um heilmikil verðmæti að ræða og verkefnið er jákvætt og spennandi. En ég þakka fyrir það sem gert hefur verið.