Þátttaka ráðherra í umræðu

Mánudaginn 10. apríl 2006, kl. 15:31:04 (7376)


132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Þátttaka ráðherra í umræðu.

[15:31]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Mér finnst hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir vera mjög ósanngjörn í garð hæstv. forseta. Eins og kom fram hjá hæstv. forseta beindi reyndar hv. þm. Þuríður Backman orðum sínum til forsætisráðherra en eins og menn vita er skipting mála í Stjórnarráðinu eins og um hefur verið rætt í þessu máli. Fyrst kom upp til andsvara hæstv. heilbrigðisráðherra. Þegar mér var gefið orðið strax þar á eftir fannst mér einfaldlega að ekki væri rétt upp á það hvernig umræðan gæti þróast að við kæmum upp tveir ráðherrar í röð. Ég féll því frá orðinu en bað um það aftur þegar fram kom hjá mörgum hv. þingmönnum að þeir óskuðu sérstaklega eftir því að heyra afstöðu fjármálaráðherrans í málinu.

Svo kemur fjármálaráðherrann upp og þá er hæstv. forseti sakaður um að fara illa með vald sitt sem forseti. Ég hugsa að það hafi verið a.m.k. fimm þingmenn sem hvöttu sérstaklega til þess að fjármálaráðherrann kæmi upp og tjáði sig um málið. Svo gerir hann það og þá er hæstv. forseti skammaður fyrir það. Mér finnst það vera ósanngjarnt, frú forseti.