Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun

Mánudaginn 10. apríl 2006, kl. 21:39:46 (7451)


132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[21:39]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Sá stutti tíma sem við höfum til andsvara er auðvitað vandmeðfarinn en ég átti eftir að spyrja hæstv. ráðherra út í fjármögnunarhliðina á þessu dæmi öllu. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra í dag að ef menn hefðu viljað halda áfram með Byggðastofnun hefði þurft að bæta þar inn nokkrum milljörðum. Spurningin er því sú, frú forseti: Hvernig verður sá vandi leystur með stofnun Nýsköpunarmiðstöðvar, á hún að fá með sér halann eða hvernig á að leysa fjármögnunardæmið?

Það vekur líka athygli mína þegar hin snubbótta umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um þetta frumvarp er skoðuð að þá kemur í ljós að þar er gert ráð fyrir því að rekstur þessara sameinuðu stofnana kosti 1,1 milljarð kr. sem er samanlagður kostnaður þessara þriggja stofnana, þ.e. rekstrarkostnaður, en hvergi er minnst á sértekjur stofnananna tveggja, þ.e. Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins og Iðntæknistofnunar, sem er upp á rúmlega hálfan milljarð. Það er spurning hvað verður um þennan hálfa milljarð í þessu fjármögnunardæmi, hvort þessi hálfi milljarður eigi að koma upp í þennan kostnað sem augljóslega er til staðar, þ.e. skuldbindingar Byggðastofnunar, eða hvort einhverjar aðrar leiðir eru skoðaðar í þeim efnum.