Náttúruminjasafn Íslands

Þriðjudaginn 11. apríl 2006, kl. 20:40:08 (7653)


132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Náttúruminjasafn Íslands.

688. mál
[20:40]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit allt um það mál, hvernig þau runnu til lykta hérna haustið 1992. Það var ég sem var að slást við Sjálfstæðisflokkinn. Að vísu honum til afbötunar er rétt að rifja upp að fyrirvaralítið sigldi þjóðin inn í dálítið erfiða kreppu. Menn þurftu að ráðast í að draga saman. Eitt af því sem menn gerðu þá að kröfu Sjálfstæðisflokksins var að taka út úr fjárlagafrumvarpinu 10 millj. kr. framlag til að hefja starfið. Auðvitað var það fjarri því að vera nægilegt til að ráðast í einhverjar framkvæmdir af neinu tagi. Kostnaðurinn þá árið 1991 var áætlaður 1 milljarður.

Það var hins vegar fyrsta skóflustungan sem skipti máli. Þá var það komið á blað. Þetta þekkir hæstv. ráðherra af fjölmörgum verkum sem hún hefur komið að. Menn verða að byrja. Menn verða að ná því inn á fjárlög svo hægt sé að halda áfram. Það tókst ekki. Síðan hafa sleitulaust setið ráðherrar Sjálfstæðisflokksins og ekkert hefur gerst.

Hæstv. ráðherra sagði að fram undan væri gríðarlega mikið stefnumótunarstarf. Hvað hafa þá ráðherrar Sjálfstæðisflokksins verið að gera í 16 ár? Hvað hefur hæstv. ráðherra verið að gera í þessi tæp tvö ár sem hún hefur setið? Auðvitað veit ég að hún hefur haft mörgu öðru að sinna en það kemur bara fram í þessu frumvarpi að engin áætlun er um hvað þetta kostar. Það er engin áætlun um hvað þetta kostar einu sinni á þessu ári. Það hefði verið lágmark að menn hefðu vitað hvað þetta hefði kostað á þessu ári.

Að öðru leyti er þetta jákvætt skref. Sjálfsagt að þetta mál fari í gegn á þessu þingi og sem fyrst. Ég hef látið mín viðhorf koma fram en mig fýsir að vita, kannski af því ég hef þennan feril að baki, hvernig stendur á því að ráðherrann telur að ekki sé þörf á manni til að stýra þessari stofnun sem hefur sérfræðimenntun í þeim fögum (Forseti hringir.) sem tengjast safninu?