Starfsáætlun þingsins

Miðvikudaginn 19. apríl 2006, kl. 12:43:59 (7691)


132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Fundarstjórn.

[12:43]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum um fundarstjórn forseta og ég held að við getum öll sem hér erum inni verið sammála um að hún hefur verið til mikillar fyrirmyndar og ekkert út á hana að setja. Enda hefur ekki komið fram nein efnisleg gagnrýni á fundarstjórn forseta. Ég átta mig ekki á því af hverju menn eru að ræða þetta jafnlengi og raun ber vitni.

Nema, virðulegi forseti, menn séu kannski að reyna eitthvað annað. Það má vera. Það er þá spurningin hvað það er. Mér finnst hæpið að menni kvarti undan því að þingfundir séu langir ef menn eru svo í því, sem menn hafa ekkert farið í felur með, a.m.k. ekki hv. þm. Össur Skarphéðinsson, að beita málþófi þangað til þeir fá sitt fram. Það segir sig sjálft að ef hér er stundað málþóf þurfa þingfundir að vera langir.

Hér er verið að ræða fundarstjórn forseta og ég held að niðurstaðan sé sú, eftir að við höfum hlustað á þessar ræður, að hún er til fyrirmyndar. Menn koma í löngum röðum undir þessum lið án þess að gagnrýna það með efnislegum hætti. Ég vona að fundarstjórn verði jafngóð og verið hefur fram til þessa.