Starfsáætlun þingsins

Miðvikudaginn 19. apríl 2006, kl. 13:01:34 (7697)


132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Starfsáætlun þingsins.

[13:01]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Hér er rætt um fundarstjórn forseta og ég get tekið undir það að sjálfsögðu að starfsáætlun þingsins sem var gefin út í haust hefur raskast allverulega. Fyrir því eru ýmsar ástæður. Ég vil hins vegar segja að ég tel að hæstv. forseti þingsins beri ekki sök í því máli, ég held að ýmislegt annað spili þar inn í. (Gripið fram í.) Já, ýmsar ástæður, virðulegur þingmaður.

Hér hefur líka verið rætt um samráð milli stjórnar þingsins og forustu þingflokkanna. Ég hef verið starfandi þingflokksformaður um skeið og ég verð að segja af minni reynslu að mér hefur fundist hæstv. forseti hafa lagt sig mjög fram um að eiga gott samráð einmitt við forustumenn þingflokkanna. Að sjálfsögðu er það hins vegar þannig að oft og tíðum eru uppi skiptar skoðanir og ágreiningur um þinghaldið og ýmislegt sem því fylgir. Þá er það auðvitað forsetinn sem heggur á hnúta og ræður för. Það er auðvitað í valdi forseta að ákveða dagskrá þingsins hverju sinni og það er einfaldlega þannig, og við hinir hv. þingmenn verðum auðvitað bara að lúta því þó að … (ÖJ: … að hætti Framsóknar er nú ekki rismikið.)

Ég vil bara ítreka það þrátt fyrir frammíkall hv. þm. Ögmundar Jónassonar að samráð forseta við forustumenn þingflokkanna hefur verið með ágætum. Það er það sem ég er að segja og ég vil biðja hv. þingmann að sitja á sér, hann getur talað úr ræðustól á eftir.

Ég held, virðulegur forseti, að það sé mjög góð tillaga hjá forseta sem kom fram í morgun að forseti setjist á föstudaginn niður með forustumönnum þingflokkanna og reyni að ná einhverri niðurstöðu um það hvernig við ætlum að halda þessu starfi áfram. Ég held að það sé bara mjög gott að gera það á föstudaginn og styð það eindregið.

Ég held að það væri mjög gott líka að við mundum bara láta hér staðar numið með umræðuna um fundarstjórn forseta. Ég held að allt sé komið fram — eða ég geri ráð fyrir því — sem menn hefðu viljað að kæmi hér fram. Ég legg til að við hefjum hér umræðu um þau mál sem eru á dagskránni. Mönnum liggur mikið á hjarta að fá að ræða um Ríkisútvarpið þannig að ég skora á forseta að reyna að hefja þá umræðu sem allra fyrst og við förum síðan yfir þessi mál á föstudaginn og reynum að ná niðurstöðu í það hvernig við ætlum að halda áfram þingstörfum. Mjög mörg mikilvæg mál bíða umræðu og við höfum svo sem nógan tíma fram undan, en við þurfum bara að komast að niðurstöðu um hvernig við ætlum að nýta hann til þess að ljúka umfjöllun um þau fjölmörgu mál sem fyrir liggja. Það er einfaldlega verkefnið fram undan en ég tel mikilvægt að við hefjum nú þegar eða a.m.k. sem allra fyrst að ræða þau mál sem eru hér á dagskrá í dag. Við munum ekki kippa starfsáætlun þingsins í liðinn með því að lengja þessa umræðu öllu frekar.