Starfsáætlun þingsins

Miðvikudaginn 19. apríl 2006, kl. 13:15:07 (7702)


132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Starfsáætlun þingsins.

[13:15]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Forseti virðist kippa sér upp við það þegar við höfum farið hér í gegnum störf þingsins og hvernig þetta blasti við fólki. Þessu var líkt við skrípaleik og ég er á því að hæstv. forseti ætti að tryggja að þetta líti allt vel út og fari vel fram. Einn liður í því fyrir hæstv. forseta væri einmitt að halda þennan fund um störf þingsins, ekki á föstudaginn heldur nú þegar, gera hlé á þessum fundi og fara í gegnum það hvernig þinghaldinu á að vera háttað næstu daga í stað þess að halda áfram í algjörri ósátt.

Í rauninni hefðu átt að vera hér fyrirspurnir. Fjöldi fyrirspurna bíður. Hæstv. forseti vildi eitthvað bera í bætifláka fyrir það að þær væru ekki hér á dagskrá og sagði að það væri vegna þess að meiri tíma hefði verið varið til fyrirspurna en áður. Ég er ekki viss um að svo sé. Það þarf að fara í gegnum það. Að vísu byrja menn fyrr á daginn, á hádegi, en þar á móti hefur sjaldan verið haldið áfram eftir þingflokksfundi, eftir klukkan sex á miðvikudögum. Það hefur þó komið fyrir. Ég er á því að einfaldlega þurfi að fara í gegnum þetta.

Einnig hefur komið fram í umræðunni um störf þingsins að ráðherrar velji sér fyrirspurnir. Það ber á því og ég vil minna hæstv. forseta — við erum að ræða um störf hans — að sumum fyrirspurnum, mjög mikilvægum, er ósvarað. Maður veltir fyrir sér hvort einfaldlega sé verið að komast hjá því að svara umræddum fyrirspurnum. Ég nefni fyrirspurn sem ég er sjálfur með, um Samkeppnisstofnun, hvort í raun hafi fjölgað — eða hvort verklag hafi batnað við það að leggja Samkeppnisstofnun niður og taka upp Samkeppniseftirlit. Ég er á því að það hafi verið yfirvarp og þess vegna vil ég fá skýr svör. Ég held að þar hafi allt annað legið að baki en látið var í veðri vaka. Ég er á því að Samkeppnisstofnun hafi hreyft við málum sem stóðu stjórnarflokkunum of nærri og þess vegna hafi verið hreyft við því máli. Þess vegna þarf einmitt að fá skýr svör hvað það varðar, hvort fjölgað hafi málum sem fara þar í gegn eða ekki.

Þetta eru mál sem þarf að fá svör við og ég vona að hæstv. forseti standi ekki í vegi fyrir því með því að slá fyrirspurnum á frest meðan það blasir við að miðvikudagarnir eru venjulega teknir undir fyrirspurnir. (Forseti hringir.)