Atvinnuástandið á Bíldudal

Mánudaginn 24. apríl 2006, kl. 15:14:51 (7834)


132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Atvinnuástandið á Bíldudal.

[15:14]
Hlusta

Pétur Bjarnason (Fl):

Virðulegi forseti. Fyrirspurnin varðar atvinnuástand á Bíldudal og ég ætla að byrja á að rekja nokkrar staðreyndir.

Fólksfækkun á Bíldudal er rétt um 100 manns á síðasta áratug eða um 30% íbúanna. Þeir sem eftir eru sækja vinnu að stórum hluta annað, oft yfir tvo fjallvegi með tilheyrandi slysahættu sem hefur sýnt sig að vera veruleg. Hörpudiskveiðar voru bannaðar í firðinum fyrir nokkrum árum vegna kadmínmengunar og margir misstu þar stóran hluta af atvinnu sinni. Engar bætur urðu fyrir það. Kræklingaeldi sem á upphafsárum gekk vel, var slegið af vegna sömu ástæðna fyrir tveimur árum. Engar bætur fengust fyrir það. Rækjuveiðar hafa stórminnkað, verðið hefur hrunið á örskömmum tíma og rækjuvinnsla á staðnum hefur ekki verið í gangi núna í tvö ár og rækja flutt til Súðavíkur sem unnin var. Fyrirtækið Bílddælingur hefur verið stopp í 10 mánuði en hafði þá starfað í um eitt og hálft ár þegar að því kom og að sögn forsvarsmanna var ástæðan missir byggðakvóta, auk annars. Fyrirtækið var ekki gjaldþrota en leitaði eftir stuðningi opinberra aðila við ýmsar aðgerðir sem lagðar voru fram til að halda starfsemi sinni áfram. Þar að auki fækkar fólki á Vestfjörðum í heild stöðugt. Nú eru viðræður í gangi hjá nýjum aðilum til að reyna að koma atvinnuástandinu í betra horf, koma ástandinu í betra horf, koma hjólunum í gang aftur. Þeir hafa átt í viðræðum m.a. við Byggðastofnun og fjölmarga opinbera aðila. Það eina sem þeir hafa aðhafst undanfarna mánuði eftir því sem ég best veit er að skrifa skýrslur og fleiri skýrslur þó að ástandið hafi verið óbreytt í tíu mánuði.

Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Hyggst hann beita sér í málefnum Bílddælinga? Vill hann beita sér fyrir sértækum aðgerðum í því skyni? Telur hann ekki að aðstæður og fólksfækkun á Vestfjörðum tengist þenslu og stóriðjuframkvæmdum annars staðar á landinu og því réttlætanlegt að svara ástandi eins og þessu með einhverju móti?