Sinfóníuhljómsveit Íslands

Mánudaginn 24. apríl 2006, kl. 17:09:52 (7874)


132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

402. mál
[17:09]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Mörður Árnason kallaði sjálfan sig nýliða í þessum sölum. Ég get ekki fellt sjálfan mig undir þá skilgreiningu. Í síðustu viku voru liðin 15 ár frá því að ég tók hér sæti. Á þeim 15 árum hef ég aldrei orðið þess áskynja, orðið vitni að því fyrr eða haft af því nokkurn pata, að mál væri til 2. umr. í þinginu án þess að hafa verið afgreitt formlega úr nefnd.

Það kemur fram í máli hv. þm. Marðar Árnasonar að stjórnarandstaðan var ekki einu sinni spurð álits á meginviðhorfum í niðurstöðu umfjöllunar um málið. Það þýðir einfaldlega að málið er ekki afgreitt með réttum formlegum hætti úr nefnd. Ef það er svo að bókað sé í skjöl og gerðabækur hv. menntamálanefndar að málið hafi verið afgreitt kemur þá fram hver er afstaða minni hlutans? Ég vildi gjarnan spyrja hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson að því. Ég held að menn þurfi að ganga úr skugga um það.

Lög eru lög. Það er einfaldlega svo að þau eru ekki afgreidd með einhverjum tæknilegum annmörkum. Það er ekki svo, frú forseti, að menn séu spurðir að því eftir á frammi á gangi hvort þeim sé sama hvort hitt og þetta mál sé afgreitt úr nefnd. Ég tel að þegar þessi staða er komin upp sé sanngjarnt að fara fram á það við hæstv. forseta að málinu verði frestað og gengið úr skugga um hvort málið hafi verið afgreitt úr nefndinni. Hér hefur komið fram hjá talsmanni Samfylkingarinnar að svo var ekki. Það hefur komið fram hjá honum líka að afstaða stjórnarandstöðunnar ætti hvergi að vera skráð í fundargerðarbækur nefndarinnar. Hún var ekki spurð að því. Málið einfaldlega gleymdist vegna flumbrugangsins og óðagotsins við að koma út þessu ólánsfrumvarpi um Ríkisútvarpið hf. Það er ekki hægt. Menn verða að fara að lögum.