Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 25. apríl 2006, kl. 14:37:51 (7967)


132. löggjafarþing — 108. fundur,  25. apr. 2006.

Atvinnuleysistryggingar.

742. mál
[14:37]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þau frumvörp sem við ræðum hér, annars vegar um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og hins vegar frumvarp um vinnumarkaðsaðgerðir, eru fram komin í tengslum við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar til að greiða fyrir samkomulagi ASÍ og Samtaka atvinnulífsins um áframhaldandi gildi kjarasamninga frá í nóvember á síðastliðnu ári.

Það ef full ástæða til að þakka verkalýðshreyfingunni og forustu ASÍ fyrir þann áfanga sem hér hefur náðst og er einn af mörgum sem verkalýðshreyfingin hefur náð fram í gegnum tíðina í tengslum við kjarasamninga til að treysta kjör og aðbúnað launafólks á vinnumarkaði.

Þær breytingar sem hér eru lagðar til eru afar þýðingarmiklar, bæði auknar greiðslur atvinnuleysisbóta og að hér eigi að taka upp kerfi virkra vinnumarkaðsaðgerða til að treysta stöðu þeirra sem höllum fæti standa á vinnumarkaði. Þessi leið felur í sér nýjar áherslur og nýja hugsun að því er varðar stöðu þessara hópa og byggist á mikilvægri aðstoð og þjónustu við þá sem eru í atvinnuleit og hafa m.a. misst vinnu sína vegna tækniframfara í atvinnulífinu. Allt of stór hópur ófaglærðra, sem af ýmsum ástæðum hefur ekki lokið námi, hefur orðið undir í þeirri byltingu sem hefur orðið á atvinnuháttum og á vinnumarkaði þar sem sífellt er krafist meiri menntunar og þekkingar til að fólk sé samkeppnishæft á vinnumarkaði. Þessu fólki munu væntanlega nýtast vel þær hugmyndir sem eru uppi um virkar vinnumarkaðsaðgerðir.

Þegar verið er að gera breytingar sem skipt geta sköpum um afkomu fólks er undirstaða þess iðulega vilji stjórnvalda á hverjum tíma til að fylgja eftir breytingunum og lagasetningunni og ræður það oft úrslitum um framkvæmd mála að fjármagn fylgi aðgerðum. Af því hef ég áhyggjur að því er varðar frumvarpið um virkar vinnumarkaðsaðgerðir.

Í þessu tveggja stoða kerfi er nauðsynlegt að litið sé á þetta kerfi heildstætt, annars vegar atvinnuleysistryggingar eða atvinnuleysisbæturnar sjálfar og hins vegar virku vinnumarkaðsaðgerðirnar ef árangur á að nást. Því er það sérstaklega mikilvægt að vinnumarkaðsaðgerðirnar séu markvissar, vel skipulagðar og að þær þjóni vel atvinnuleitendum og geri þá öflugri til að takast á við störf á vinnumarkaðnum sem gefa betri tekjumöguleika.

Ef vinnumarkaðsaðgerðirnar eru bara orð á pappír og þeim ekki fylgt eftir með fullnægjandi fjármagni þá sitjum við í sömu hjólförum og munum ekki ná að treysta stöðu þeirra sem höllum fæti standa á vinnumarkaði.

Ef litið er til hvernig gengið er frá fjármögnun á annars vegar greiðslu til atvinnuleysisbóta og hins vegar til greiðslu á virkum vinnumarkaðsaðgerðum þá er, eins og ég sagði, ástæða til að hafa ákveðnar áhyggjur af því hvort þessar aðgerðir skili tilætluðum árangri ef ekki fylgir fjármagn. Það er oft misvísandi — annars vegar í skýrslu nefndar um atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir, sem þessi frumvörp byggja á, og hins vegar t.d. umsögn fjárlagaskrifstofu um frumvarp um vinnumarkaðsaðgerðir. En í yfirliti fjárlagaskrifstofu um útgjöld vegna þessa segir, með leyfi forseta:

„Að óbreyttu er áfram gert ráð fyrir að atvinnuleysistryggingar fjármagni vinnumarkaðsúrræðin.“

Atvinnuleysistryggingar. Það er sem sagt gert ráð fyrir að atvinnuleysistryggingar fjármagni þessi vinnumarkaðsúrræði en þegar litið er á skýrslu nefndarinnar um atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir þá kemur fram, með leyfi forseta:

„Lagt er til að sú meginregla verði mótuð í væntanlegri löggjöf að skýr verkaskipting verði á milli Atvinnuleysistryggingasjóðs og ríkissjóðs hvað varðar fjármögnun atvinnuleysisbóta og vinnumarkaðsaðgerða. Þannig verði hlutverk Atvinnuleysistryggingasjóðs að fjármagna atvinnuleysisbætur og kostnað við úthlutun og umsýslu þeirra. Fjármunir til vinnumarkaðsaðgerða koma að meginhluta til úr ríkissjóði en aðrir aðilar geta með samningum lagt fjármuni til vinnumarkaðsaðgerða.“

Sú breyting sem hér hefur verið gerð er ekki samhljóða því sem var í skýrslunni sem þessi frumvörp byggjast á. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er það með samkomulagi við verkalýðshreyfinguna að hér er verið að breyta um fjármögnun og leggja til að vinnumarkaðsaðgerðirnar sjálfar ásamt breytingum á atvinnuleysisbótunum séu fjármagnaðar úr Atvinnuleysistryggingasjóði þegar í skýrslunni er alveg kristaltært að það er ríkissjóður sem á að fjármagna þessar vinnumarkaðsaðgerðir? Þetta er mikilvægt að fá fram við þessa umræðu.

Síðan vildi ég aðeins fara inn á Atvinnuleysistryggingasjóðinn og fjármögnun hans. Miðað er við að ekki þurfi að hækka greiðslur í Atvinnuleysistryggingasjóð til að standa undir auknum atvinnuleysisbótum og er miðað við, ef ég skil þetta rétt, að Atvinnuleysistryggingasjóður geti staðið undir þessum greiðslum miðað við 2,6% atvinnuleysi.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hefur verið reiknað út miðað við þróun og horfur á vinnumarkaðnum og spá um atvinnuleysi næstu missiri og ár hve lengi sjóðurinn getur staðið undir þessum réttindum án þess að fara að ganga á eigið fé? Það er ástæða til að skoða þessa fjármögnun líka í ljósi þeirrar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga frá mars 2004 og þeim áformum að tryggingagjald lækki um 0,45% þann 1. janúar 2007. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort einhverjar breytingar verði á þessum áformum vegna þeirra aðgerða sem í frumvarpinu felast, þ.e. greiðsla á tryggingagjaldinu sem stendur undir fjármögnun Atvinnuleysistryggingasjóðs. En samkvæmt því sem fram kemur frá fjárlagaskrifstofu er gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs muni samtals aukast um 700–800 millj. á árinu 2007 vegna ákvæða frumvarpsins og þá er miðað við 2,6% atvinnuleysi.

Það er líka ástæða til að hafa áhyggjur af því sem dregið er fram í fylgiskjali með skýrslunni sjálfri. Þar eru þrjú fylgiskjöl og m.a. lýst þar afstöðu Samtaka atvinnulífsins til hugmynda um tekjutengingu atvinnuleysisbóta. Þar kemur fram atriði sem ég vona að hæstv. ráðherra líti fram hjá og ætli ekkert að taka undir. Hér er talað um, með leyfi forseta, að:

„Skoðaðir verði kostir þess að launamenn kaupi sjálfir viðbótartryggingu eða taki að minnsta kosti þátt í þeim kostnaði líkt og þekkist á Norðurlöndunum. Samtök atvinnulífsins hafa bent á þennan möguleika í nefndarvinnunni en mætt andstöðu ASÍ. Nærtækast væri að líta til þeirra kerfa sem þar hafa verið þróuð. Ef kostnaður vegna tekjutengingar á að greiðast úr Atvinnuleysistryggingasjóði þá verður að ná fram samsvarandi sparnaði á breytingum á bótareglum eða auka tekjur sjóðsins með hækkun atvinnutryggingagjalds samhliða samsvarandi lækkun almenns tryggingagjalds.“

Ég spyr, virðulegi forseti, hvort nokkrar slíkar hugmyndir séu upp á borðinu að því er þetta varðar. Ég hef ekki haft tækifæri til að skoða það ofan í kjölinn en vinnumarkaðsaðgerðirnar komu fyrst inn í þingið hér í gær og þurfti að taka fyrir með afbrigðum. Eru í frumvarpinu einhver ákvæði sem virka til þrengingar og sparnaðar frá því sem nú er, líkt og Samtök atvinnulífsins vísa til?

Virðulegi forseti. Ýmis ákvæði í frumvarpinu munu tryggja betur rétt atvinnulausra, einkum á þriggja mánaða tekjutengda tímabilinu. En áfram eru grunnbæturnar afar lágar og einungis gert ráð fyrir að fullar atvinnuleysisbætur verði 96 þús. kr. á mánuði. Fyrstu tvær vikurnar verða atvinnulausir á grunnbótum og síðan þrjá mánuði á tekjutengdu bótunum sem hæst geta numið 180 þús. kr. En síðan færu þeir aftur á grunnbætur. Ég taldi mig hafa séð í fylgiskjali með bókun ASÍ að þar hafi verið lögð áhersla á hærri bætur og til lengri tíma en þriggja mánaða. Þar var lögð áhersla á að tekjutengingin yrði miðuð við 250 þús. kr. Mig minnir að ég hafi séð að það yrðu sex mánuðir í staðinn fyrir þrjá. En það er ljóst að þetta frumvarp ber með sér málamiðlun Samtaka atvinnulífsins og ASÍ.

Það er gagnrýnisvert í þessu frumvarpi að bótatímabilið er stytt úr fimm árum í þrjú ár. Ég spyr ráðherra út í það. Það væri gott ef ráðherra svaraði því áður en þessari umræðu lýkur. Ég geri ekki ráð fyrir að hann geti svarað því í stuttum andsvörum. Hvað með þá sem enga vinnu hafa fengið eftir þrjú ár? Þá detta þeir af bótum. Þeir gátu þó verið á þeim í fimm ár áður. Hvert á fólkið þá að fara? Hvað öryggisnet geta þeir treyst á sem ekki hafa fengið vinnu á þessum tíma? Er þeim vísað á Tryggingastofnun eða sveitarfélögin eða hvernig hefur þetta verið hugsað?

Ég hef líka áhyggjur af því að í ákvæði til bráðabirgða II er gert ráð fyrir því að þeir sem voru skráðir atvinnulausir fyrir 15. nóvember 2005 fái ekki rétt til tekjutengdra bóta. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað er þetta stór hópur, t.d. þeir sem eru lengur en þrjú ár á bótum miðað við reynslu undanfarinna ára? Erum við að tala um 100 manns eða 200 manns? Hvað er hann að tala um stóran hóp? Ég býst við að langstærstur hlutinn sé á atvinnuleysisbótum skemur en þrjá mánuði. En þarna er einhver hópur sem gæti dottið upp fyrir miðað við þessa lagasetningu. Ég spyr ráðherrann hvort um það hafi verið hugsað og hvernig standi á því að þeir sem voru atvinnulausir fyrir 15. nóvember muni ekki njóta góðs af því sem þó er það besta í þessu frumvarpi, þ.e. að bæturnar séu hækkaðar, að vísu bara tímabundið í þrjá mánuði. Þar er hópur sem einskis mun njóta að því er það varðar.

Ég vil líka spyrja um 14. gr. í frumvarpinu um atvinnuleysistryggingar. Þar er talað um virka atvinnuleit. Mér finnast öll þessi skilyrði nokkuð ströng, að menn verði að vera reiðubúnir að taka starf hvar sem er á Íslandi, svo dæmi sé tekið. Það er virðist þó gert ráð fyrir einhverri undanþágu þar. Í 14 gr. frumvarps til laga um atvinnuleysistryggingar segir, með leyfi forseta:

„Vinnumálastofnun er heimilt að veita undanþágu frá skilyrðum b-, d- og e-liða 1. mgr. þannig að hinn tryggði, sem vegna aldurs, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima óskar eftir hlutastarfi eða starfi innan tiltekins svæðis, geti talist vera í virkri atvinnuleit.“

Þarna er gerð mikilvæg undanþága sem ég met mikils. En félagsmálaráðherra getur ákveðið í reglugerð skilyrði fyrir slíkum undanþágum. Ég spyr: Er slík reglugerð tilbúin? Hafa verið lögð fram drög að slíkri reglugerð? Ég spyr vegna þess að það er líka mikilvægt að fá slíka reglugerð inn í félagsmálanefnd þegar við fjöllum um þetta mál. Það er brýnt að menn fari vel yfir þau skilyrði sem þarna eru sett upp.

Ég spyr líka um 63. gr. Þar er verið að tala um styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði til verkefna á vinnumarkaði. Hér stendur, með leyfi forseta:

„Félagsmálaráðherra er heimilt, að fenginni tillögu stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, að veita styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði til einstakra verkefna sem ætlað er að efla atvinnulíf einstakra svæða, fjölga atvinnutækifærum einstakra hópa fólks sem og til starfsmenntunar.“

Hvað er verið að tala um hérna, nákvæmlega? Er þetta eitthvað nýtt eða framhald af því sem verið hefur í gangi? Það er líka heimilt að veita sérstaka styrki vegna búferlaflutninga hins tryggða innan lands vegna starfstilboða, þ.e. ef hann er í virkri atvinnuleit og er skyldaður til að taka starf úti á landi. Ef ég skil málið rétt yrði viðkomandi boðið upp á styrki vegna búferlaflutninga. Félagsmálaráðherra á að setja nánari reglur þar um. Ég vildi gjarnan vita: Hvað er verið að tala um háa styrki? Hvernig er þetta hugsað? Liggja fyrir drög að reglugerð varðandi slíkar styrkveitingar?

Síðan spyr ég um refsi- og viðurlagaákvæði gagnvart fólki í atvinnuleit sem fylgir ekki í einu og öllu ákvæðum laganna. Þau eru allt of hörð að mínu mati. Refsi- og sektarheimildir eru allt of víðtækar. Þar er ég að tala um viðurlagakaflann, þ.e. XI. kafla frumvarpsins um viðurlög, t.d. ef þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum er hafnað er viðkomandi hreinlega tekinn af bótum í 40 virka daga frá því að viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, og í heila 60 daga eða tvo mánuði ef er beitt ítrekunarheimildum laganna fyrir atvinnulausa sem sætt hefur viðurlögum samkvæmt 57. og 59. gr.

Ég segi bara, virðulegi forseti, að menn hafa ekki verið svona refsiglaðir gagnvart atvinnurekendum eða svonefndum kennitöluhoppurum sem stofna ítrekað rekstur á grunni gjaldþrota fyrirtækja og vísa vörslusköttum og launakröfum til ábyrgðarsjóðs launa. Mér finnst að viðurlagakaflann þurfi að endurskoða. Ég spyr: Var samkomulag um þennan viðurlagakafla, t.d. við verkalýðshreyfinguna? Ég trúi því ekki að verkalýðshreyfingin standi að viðurlagakaflanum eins og hann birtist hér.

Síðan spyr ég um lífeyrisréttindin. Gert er ráð fyrir 6% og ekkert framlag vegna viðbótarlífeyrissparnaðar. Ég tel að þetta sé of lágt. Af hverju er miðað við 6%? Eru lífeyrisréttindin ekki almennt orðin 7% á vinnumarkaði? Af hverju þarf greiðslan að vera lægri til atvinnulausra, þ.e. greiðsla atvinnurekenda í lífeyrissjóð?

Ég spyr líka um ósamrýmanlegar greiðslur samkvæmt 51. gr. Ég spyr: Ef um er að ræða að viðkomandi hafi lægri greiðslur, t.d. sjúkradagpeninga eða fái greiðslur samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, fær hann ekki að njóta mismunarins? Í 51. gr. er talað um þessar greiðslur, sjúkradagpeninga og greiðslur til foreldra langveikra barna. Ef þær eru lægri en atvinnuleysisbæturnar, nýtur þá viðkomandi ekki að minnsta kosti mismunarins? Eða á hann engan rétt ef hann er á slíkum bótum?

Ég vildi fara yfir fleiri atriði en til þess er ekki mikill tími. Ég vil spyrja um úthlutunarnefndirnar. Í ályktun á félagsfundi Eflingar kom fram gagnrýni á að leggja eigi niður úthlutunarnefndirnar. Ég spyr hvernig hæstv. ráðherra svari þeirri gagnrýni. Samkvæmt frumvarpinu verður ein úthlutunarnefnd yfir allt landið sem ákveður bætur allra atvinnulausra á landinu. Vinnumálastofnun mun samkvæmt frumvarpinu yfirtaka alla framkvæmd laganna um atvinnuleysistryggingar. Efling og VR hafa mótmælt þessum breytingum á lögunum og telja að með þessu móti verði þau beinu tengsl sem félögin hafi átt við atvinnulaust fólk rofin.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvert fólk á landsbyggðinni eigi að leita ef það er atvinnulaust. Er það til sveitarfélaganna eða hvernig er þetta hugsað ef leggja á allar þessar úthlutunarnefndir niður? Ég lýsi mig ekki andsnúna því fyrir fram en ég vil vita hvað á að koma í staðinn.

Varðandi vinnumarkaðsaðgerðirnar þá er það mál svo nýkomið inn að manni hefur varla gefist tíma til að lesa það. Meginþunginn er lagður á ráðgjöf við atvinnuleitendur sem er gott og vikuleg stimplun aflögð. Það er mjög gott.

Fyrir utan fjármögnunina, sem ég nefndi hér áðan, og spurði um, þá spyr ég um hlutverk þessara þjónustustöðva. Mér sýnist, virðulegi forseti, mjög óljóst í lögunum hvaða verkefni þessar þjónustustöðvar hafa. Það er bæði talað um þjónustustöðvar og líka um vinnumarkaðsráð. Það er alveg skýrt hvaða hlutverk vinnumarkaðsráð hefur en mér finnst óljóst, á þeim stutta tíma sem ég hef haft til að kynna mér málið, hvert er hlutverk þessara þjónustustöðva. Það er t.d. ekki bundið í lögum hvað þær eiga að vera margar. Það kemur bara fram einhvers staðar í greinargerð að álitið sé að þær eigi að vera átta en síðan geti félagsmálaráðherra að vild fækkað þeim eða fjölgað eftir því sem hann kýs hverju sinni. Verður ekki að hafa meiri lagastoð fyrir þessu en hér er gert ráð fyrir? Um það spyr ég.

Ég spyr líka: Var leitað með þetta mál til Tryggingastofnunar ríkisins? Hefur hún sett sig upp á móti þeim ákvæðum sem hér eru lögð til? Því það virðist eiga að gera breytingu á framkvæmd vinnumarkaðsaðgerða sem áður hefur einskorðast við úrræði tengdum við atvinnuleysistryggingakerfið. En í frumvarpinu er lögð áhersla á að Vinnumálastofnun annist skipulegar vinnumarkaðsaðgerðir án tillits til þess hvaðan framfærsla atvinnuleitanda kemur. Það virðist því sem bæði geti verið um læknisfræðilega og atvinnutengda endurhæfingu að ræða sem fallið gæti undir þetta. Ég hygg að þar sé skynsamlega staðið að málum, að skoða málið meira heildstætt. En ég spyr: Hefur verið leitað umsagnar um að fara út í málið með þessum hætti, til Tryggingastofnunar ríkisins? Er hugmyndin sú að verndaðir vinnustaðir falli almennt inn í þessar vinnumarkaðsaðgerðir? Þá er ég að tala um vinnumarkaðsúrræði fyrir fatlað eða þroskaheft fólk.

Ég hefði viljað ræða nokkur fleiri atriði en sé að tíma mínum er lokið. Ég vænti þess að áður en þessari umræðu lýkur svari hæstv. ráðherra því sem fram hefur komið í máli mínu.