Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Þriðjudaginn 02. maí 2006, kl. 16:48:50 (8151)


132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

794. mál
[16:48]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra flytur hér frumvarp, sennilega í þriðja skiptið, um tímabundna lækkun á olíugjaldinu úr 45 kr. í 41 kr., eða 4 kr. lækkun.

Í þessu andsvari langar mig að spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í það hvort ekki hafi verið nein umræða í hæstv. ríkisstjórn um flutningskostnaðinn. Við vitum að hið háa olíuverð sem núna er í landinu — og því miður bendir lítið til þess að það lækki á næstunni — er þegar farið að hafa þær afleiðingar að flutningskostnaður er að hækka, hann er sífellt að hækka. Ég spyr út í þetta, virðulegi forseti, vegna þess að fyrir síðustu alþingiskosningar beitti ríkisstjórnin sér fyrir því, þar á meðal ráðuneyti fjármála ásamt öðrum ráðuneytum, að skrifa mikla skýrslu og boða það í kosningunum, báðir stjórnarflokkarnir núverandi gerðu það, að ráðast ætti að þessari meinsemd, að þessum landsbyggðarskatti sem flutningskostnaðurinn er og lækka hann. Um það var skrifuð mikil skýrsla sem reyndar er hernaðarplagg ríkisstjórnar og fæst ekki birt. En það er annar handleggur.

Ég hef sagt það áður, virðulegur forseti, að í byggðaáætlun segir að gefist hafi verið upp á þessu og hætt við. Hæstv. iðnaðarráðherra Valgerður Sverrisdóttir sagði á fundi Eyþings að það væri ekki samstaða innan ríkisstjórnarinnar um að gera þetta, og það hefur komið fram hér á þinginu í svari við spurningu hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur, þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins, sem hefur upplýst að þetta hafi ekki stoppað í stjórnarflokkunum. Þá er hægt að draga þá ályktun, miðað við það sem sagt er, að þetta stoppar í ríkisstjórn. Það er einfaldlega erindi mitt hingað upp að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Var ekkert rætt um það í þessu sambandi að efna þetta loforð eða ætlar hæstv. ríkisstjórn að halda áfram að hækka þennan landsbyggðarskatt?