Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Þriðjudaginn 02. maí 2006, kl. 16:54:04 (8155)


132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

794. mál
[16:54]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Þetta var ansi stutt framsaga hjá hæstv. fjármálaráðherra fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um olíugjald og kílómetragjald en eins og fram kom í máli hans og í umræðunum hér áðan er með þessu verið að framlengja tímabundna lækkun á upphæð olíugjaldsins sem var lækkað á síðasta ári úr 45 kr. í 41 kr. á hvern lítra af gjaldskyldri olíu. Þessi lækkun var til 1. júlí 2006 og það er sem sagt verið að framlengja þetta. Markmiðið með þessari tímabundnu lækkun er að bregðast við óhagstæðri þróun á heimsmarkaðsverði á dísilolíu samanborið við heimsmarkaðsverð á bensíni, eins og hér segir.

Virðulegur forseti. Við í Samfylkingunni getum auðvitað ekki annað en fagnað því að þetta frumvarp skuli fram komið því við höfum kallað eftir því að það kæmi hér fram í þinginu. Það er bara í samræmi við frumvarpsflutning sem nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar standa að og var lagt fram í upphafi þings í haust undir forustu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Þar var lagt til að þetta yrði framlengt, þessi tímabundna lækkun, og yrði ekki 41 kr. á hvern lítra af gjaldskyldri olíu sem olíugjaldið væri heldur 37 kr. eins og sagði í því frumvarpi. Það er því gengið lengra í því frumvarpi en hér er gert ráð fyrir og það skýrist auðvitað fyrst og fremst af þeim miklu hækkunum sem eru að verða akkúrat núna þessa mánuðina á heimsmarkaðsverði á olíu.

Eins og ég kom inn á var frumvarp þingmanna Samfylkingarinnar frá í haust tvíþætt. Það tók annars vegar til olíugjaldsins og að tímabundin lækkun þess yrði framlengd, en hins vegar tók það frumvarp líka til þess að vörugjald af hverjum lítra af bensíni yrði lækkað tímabundið. Í frumvarpi þingmanna Samfylkingarinnar var lagt til að það yrði lækkað tímabundið um 5 kr. Aftur slæ ég þann varnagla að þetta var lagt fram í haust og síðan hafa hækkanir á heimsmarkaðsverði haldið áfram þannig að það getur vel verið að sú tala ætti að vera einhver önnur en 5 kr.

Það sem við teljum mikilvægt við frumvarp Samfylkingarinnar um lækkun á vörugjaldi af bensíni er að sú lækkun hefur talsverð áhrif á vísitöluna og getur hjálpað til við þær aðstæður sem núna eru þegar vísitalan fer mjög hækkandi, m.a. vegna hækkana á bensíni, og þegar verðbólgan er komin á skrið eins og nú er raunin. Við viljum því halda okkur við þetta mál og hefðum talið eðlilegt að fjármálaráðherra kæmi með slíkt mál inn í þingið samhliða því að hann leggur fram frumvarp til framlengingar á lækkun á olíugjaldi, vegna þess að lækkun vörugjalds á bensíni hefur þýðingu fyrir heimilin í landinu. Við vorum að tala um það hér áðan í umræðunni um gengishagnað fyrirtækjanna að verið væri að koma til móts við fyrirtækin í landinu við þær aðstæður sem núna eru en það er ekki síður mikilvægt að koma til móts við heimilin í landinu. Þetta getur gert það vegna þess að auðvitað skiptir bensínnotkun heimilin verulegu máli. Það má geta þess að eldsneytiskostnaður á meðalfjölskyldubíl hækkar yfir eitt ár um 40 þús. kr. vegna þeirra hækkana sem eru að verða á bensíni og það munar auðvitað um minna í rekstri heimilanna. Bara af þeim sökum hefði því verið mikilvægt að slíkt mál kæmi fram en líka eins og ég sagði vegna þess að það hefur áhrif á vísitöluna. Við vitum að í nóvember er líklegt að launaliður kjarasamninga verði lausir vegna þeirrar þróunar sem á sér stað í efnahagslífinu og þeirrar verðbólgu sem hér er komin á skrið og þá skiptir auðvitað verulegu máli að geta tekist á við það og haft áhrif á vísitöluna til lækkunar eins og hægt er að gera með því að lækka vörugjaldið á bensínlítranum.

Ég geri mér auðvitað grein fyrir að með því er ekki verið að vinna bug á verðbólgunni því að verðbólguþrýstingurinn er eftir sem áður til staðar. En þetta hjálpar til við þær aðstæður sem hér eru rétt eins og það hjálpaði til á þinginu 2001–2002 þegar þáverandi fjármálaráðherra lagði til að vörugjald af bensíni yrði lækkað tímabundið. Það gerði hann með þeim rökum að þetta væri liður í baráttunni við verðbólguna. Ef þetta var liður í baráttunni við verðbólguna árið 2001 þá getur þetta verið liður í baráttunni við verðbólguna líka núna árið 2006.

Það mál sem þingmenn Samfylkingarinnar flytja og er hjá efnahags- og viðskiptanefnd er efnislega algerlega samhljóða frumvarpinu sem þáverandi hæstv. fjármálaráðherra flutti á þinginu 2001 um tímabundna lækkun á vörugjaldi á hverjum lítra af bensíni.

Ég ætla, virðulegur forseti, aðeins að fara yfir rökin sem þá komu fram hjá hæstv. fjármálaráðherra. Þá sagði hann, með leyfi forseta:

„Ástæðan fyrir því að hér er lögð til tímabundin breyting“ — þ.e. lækkun á vörugjaldinu — „er sú að verð á bensíni hefur farið hækkandi á heimsmarkaði og það er ljóst að áhrif slíkrar hækkunar á bensínverð hér innan lands geta verið umtalsverð og hugsanlega stofnað verðlagsmarkmiðum kjarasamninga í hættu.“ Síðan sagði hæstv. fjármálaráðherra:

„Við teljum verjandi að ráðstafa fjármunum með þeim hætti í þeirri baráttu sem hér er háð við verðbólguna og til að tryggja verðlagsmarkmið kjarasamninganna.“

Þáverandi hæstv. fjármálaráðherra lagði áherslu á að þetta mál yrði afgreitt mjög hratt í þinginu.

Ég segi, virðulegur forseti, að þessi sömu rök eiga við núna. Það skiptir máli að reyna að takast á við verðbólguna. Það skiptir máli að tryggja þau verðlagsmarkmið sem menn hafa. Það skiptir máli að reyna að koma í veg fyrir að verðtryggð lán heimilanna í landinu hækki verulega vegna hækkandi vísitölu. Þess vegna hefði ég talið eðlilegt að fjármálaráðherra kæmi fram með slíkt mál samhliða framlengingunni á lækkun olíugjalds.

Bara til að gefa dæmi um það, virðulegur forseti, hvaða þýðingu þetta hefur, ef við gæfum okkur að vörugjald af hverjum lítra af bensíni lækkaði um 6 krónur í sex mánuði þá mundi það hafa áhrif á vísitöluna til lækkunar um 0,4%. Það skiptir máli að lækka vísitöluna um 0,4% því eins og ég kom inn á hér fyrr í dag þýðir 1% hækkun verðbólgu um 9 milljarða hækkun á höfuðstól verðtryggðra skulda heimilanna í landinu.

Það skiptir því verulegu máli, virðulegur forseti, fyrir fólkið í landinu að reynt verði að takast á við þetta, bæði vegna áhrifa á vísitölu og eins vegna þess að þetta eru útgjöld sem skipta fólk máli á degi hverjum. Þá skiptir það auðvitað verulegu máli, eins og kom fram hjá hv. þm. Kristjáni L. Möller, að hægt verði að lækka flutningsgjöld á landsbyggðinni. Hátt olíuverð hefur auðvitað áhrif á flutningskostnað til hækkunar. Mér er sagt að þetta sé komið fram nú þegar á fylgigögnum sem fyrirtæki gefa út vegna flutninga. Í þessum fylgigögnum eða fylgiskjölum sé sérstakur reitur þar sem stendur olíuálag.

Ég ætla að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort honum sé kunnugt um að farið sé að setja það sérstaklega inn í fylgiskjöl með vörum sem eru til flutnings, þetta sérstaka olíuálag sem svo er nefnt.

Það er auðvitað kunnara en frá þurfi að segja að hátt olíuverð skemmir samkeppnishæfni fyrirtækja á landsbyggðinni. Mér hefur verið sagt frá kjötiðnaðarfyrirtæki á Norðurlandi sem talið er að greiði allt að 100–150 millj. kr. í flutning á ári. Það segir sig auðvitað sjálft að slíkt kemur niður á vöruverði. Það eru þá neytendur sem það greiða í mörgum tilvikum og eins og ég sagði, dregur það úr samkeppnishæfni fyrirtækja á landsbyggðinni. Þannig að landsbyggðin líður undir þessu háa olíuverði. Þar af leiðandi má segja að það séu þríþætt rök fyrir að takast á við þetta, þessi mál bæði með lækkunina á olíugjaldinu og lækkun á vörugjaldi og bensíni. Það eru áhrif á vísitöluna, það eru útgjöld fólks á degi hverjum og það er mikilvægt fyrir landsbyggðina að losna við eitthvað af þeim landsbyggðarskatti sem þarna er lagður á.

Nú er ekki svo að skilja að ríkissjóður yrði eitthvað á berum bökkum þótt hann þyrfti aðeins að gefa eftir í þessum gjöldum vegna þess að tekjur ríkissjóðs af bensíni eru auðvitað umtalsverðar, sérstaklega nú þegar verðið er að hækka eins mikið og raun ber vitni. Mér skilst að tekjur af virðisaukaskatti núna, miðað við tekjur ríkissjóðs af virðisaukaskatti vegna bensíns árið 2005, séu um 740 millj. kr. í ríkissjóð yfir eitt ár. 740 millj. kr. auknar tekjur af virðisaukaskatti yfir eitt ár. Þar af leiðandi er um verulega tekjuaukningu að ræða fyrir ríkissjóð. Meðalverð á 95 oktana bensíni á liðnu ári var um 107,15 kr. á lítra en er núna 126,10 kr. á lítra. Meðalverðið fyrstu fjóra mánuðina í ár, þ.e. árið 2006, er 114,80 kr. á lítra. Ef það meðalverð héldist út árið gæfi það ríkissjóði 440 millj. kr. í auknar virðisaukaskattstekjur yfir árið samanborið við tekjurnar 2005. Þannig að jafnvel þó að verðið væri nú lækkað úr þessum 126 kr. í bara það meðalverð sem var yfir fyrstu fjóra mánuðina, 114,80 kr., þá yrði samt um verulega tekjuaukningu að ræða hjá ríkissjóði.

Ég tel, virðulegur forseti, að það sé mikilvægt að takast á við bæði þessi mál, vörugjaldið af bensíni og eins þessa framlengingu á lækkun olíugjaldsins og þessi mál eigi að fara samhliða í gegnum þingið. Ég lýsi því yfir að ég er tilbúin til þess að vinna að því í efnahags- og viðskiptanefnd að gera á frumvarpi fjármálaráðherra þá breytingu sem ég hef talað hér fyrir og afgreiða þetta mál hratt og vel í gegnum þingið svo lækkunin geti komið til framkvæmda sem allra fyrst.

Ég vil hins vegar segja það, virðulegur forseti, að nú er ég ekki þeirrar skoðunar að ekki megi skattleggja umferð og bensín. Ég tel það út frá umhverfissjónarmiði réttmæta og eðlilega skattheimtu. En fyrr má nú rota en dauðrota, eins og þar stendur. Við búum einfaldlega við eitthvert hæsta verð í heimi og það kemur niður á, eins og ég sagði, ekki síst landsbyggðinni og þetta háa bensín- og olíuverð er farið að koma verulega niður á heimilunum í landinu.

Heildarskatttekjur á árinu 2005 af umferð og bílainnflutningi voru um 47 milljarðar kr. eins og fram kom í svari hæstv. fjármálaráðherra við fyrirspurn þingmanns Samfylkingarinnar, Kristjáns L. Möllers, um skatttekjur af umferð. 47 milljarðar kr. Hér er því um verulegan búhnykk að ræða fyrir ríkissjóð. Það er ekki nema lítill hluti af þessum skatttekjum sem fer til vegaframkvæmda og til annarra framkvæmda eða annars kostnaðar hjá Vegagerðinni því Vegagerðin fær af þessu fé um 15,7 milljarða kr.

Ég segi það enn og aftur, virðulegur forseti, að ég tel mikilvægt mál hér á ferðinni. Ég vil gera á því breytingu og vil að við tökum það fyrir í efnahags- og viðskiptanefnd að vörugjald af bensíni verði jafnframt lækkað. Við afgreiðum þetta mál síðan hratt og vel hér í þinginu þannig að þessi lækkun á vörugjaldinu á bensíni komi þegar til framkvæmda við næstu mælingu á vísitölunni. Með því móti tækist okkur aðeins að sporna við þeim miklu hækkunum á vísitölu og verðtryggingu sem hér er í gangi.