Framhald þingfundar

Þriðjudaginn 02. maí 2006, kl. 20:12:45 (8191)


132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Framhald þingfundar.

[20:12]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til þess að lýsa furðu minni á fundarstjórn forseta og hvernig dagskráin hefur verið sett hér upp. Ég hélt satt best að segja þegar ég las þessa dagskrá í morgun að þetta hlyti eiginlega að vera prentvilla eða einhver misskilningur að hér væri sett sem mál nr. 3 á dagskrá Stofnun hlutafélags um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, 1. umr. núna, 2. maí 2006, eins og ástandið er í þinginu, því að ég sé, virðulegi forseti, að 4. liður á fundinum er stjórnarfrumvarp um almannatryggingar, ef leyft verður, 1. umr. einnig, miklu brýnna mál þar sem verið er að taka á sjúkratryggingum. Ég hefði nú haldið að þegar svo naumur tími er til stefnu hefði verið mikilvægara að reyna þá að vinna að því máli í staðinn fyrir að fara hér allt í einu að ræða um stofnun hlutafélags um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, sem ég fæ engan veginn séð, alls ekki, að sé eitthvað brýnt að fara að ræða núna. Það hlýtur að læðast að manni sá grunur að hér liggi að baki einhvers konar vilji til þess að efna til illinda í þinginu nú á síðustu metrunum, að það sé verið að ögra stjórnarandstöðunni, veifa framan í hana rauðum klút til þess að búa til einhver vandræði. Hvað síðan liggur þar á bak við veit ég ekki og er eflaust alveg ómögulegt að reyna að gera sér grein fyrir því hvers konar hugsunarháttur liggur að baki svona gjörningi.

Í mínum huga er þetta algjörlega tilgangslaust. Það hefur ekkert upp á sig að vera með svona stæla. Það er ekkert unnið með þessu nema ófriður. Ef það er þannig að ríkisstjórnin kýs ófrið þegar hún getur fengið frið þá segi ég bara: Verði henni að góðu, það er allt í lagi. Við getum alveg tekið þennan slag hérna í stjórnarandstöðunni ef það er það sem menn vilja.

Ég var síðast hér í morgun með formönnum þingflokka og þar var verið að reyna að ýja að því hvort hægt væri að ná einhverju samkomulagi um þinglok. En það var afskaplega lítill vilji til samninga og settir kostir sem ég verð að segja að voru afarkostir. Það hefur líka komið fram að hæstv. forseti Alþingis hafi kvartað yfir því að það gengi hægt að afgreiða mál, að gera frumvörp hér að lögum. Tölfræðin segir okkur að nú í vetur sé búið að afgreiða miklu færri mál en venjan er á þessum árstíma. Halda menn þá virkilega að svona vitleysisgangur eins og við sjáum hér núna, þar sem er verið að leggja fram frumvarp um stofnun hlutafélags um ÁTVR allt of seint, halda menn virkilega að svona vitleysisgangur flýti eitthvað fyrir þingstörfum hér í vor? Ég efast stórlega um það, virðulegi forseti.