Svar við fyrirspurn

Fimmtudaginn 04. maí 2006, kl. 19:53:02 (8333)


132. löggjafarþing — 115. fundur,  4. maí 2006.

Svar við fyrirspurn.

[19:53]
Hlusta

Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir er fundvís á það ártal þegar hún byrjar samanburðinn, síðasta ár hennar sem ráðherra. Ég hygg að þann tíma sem hún sat í ríkisstjórn með vinstri flokkunum og fram að þessum tíma hafi kaupmáttur lægstu launa versnað ár frá ári. Nú er spurning af hverju hv. þingmaður leggur ekki fram fyrirspurn um þróun lægstu tíma þann tíma sem hún var ráðherra.

Í annan stað er það eftirtektarvert að hv. þingmaður setur því mjög ströng skilyrði hvernig eigi að reikna út skattbyrði gegnt fyrrverandi borgarstjóra í Reykjavík, hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Inni í þessum tölum hér er hækkun Reykjavíkurborgar á útsvarinu sem auðvitað hefur í för með sér aukna skattbyrði. Hv. þingmaður er að tala um að ríkisstjórnin hafi þyngt skattana. Hvers vegna bað hv. þingmaður þá ekki um að frá yrði tekin sú hækkun sem Reykjavíkurborg lagði á skattgreiðendur borgarinnar? (Gripið fram í.) Það er augljóst hvernig á því stendur.

Í þriðja lagi sjáum við að það er athyglisvert að miða við 11 ár. Hv. þingmaður þykist hafa fundið eitthvert reikningslegt hagræði af því í staðinn fyrir að reikna með 10 árum eins og venja er í slíkum og þvílíkum samanburði.