Störf iðnaðarnefndar, þinghaldið fram undan o.fl.

Þriðjudaginn 30. maí 2006, kl. 14:15:55 (8365)


132. löggjafarþing — 117. fundur,  30. maí 2006.

Störf iðnaðarnefndar.

[14:15]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Þegar menn gerðu hlé á fundum var það minn skilningur og fleiri að það yrði algert hlé þangað til þingið kæmi saman í dag, þriðjudaginn 30. maí. Það þýddi að sjálfsögðu ekki að forsætisnefnd og formenn þingflokka væru ekki til staðar til að hittast og undirbúa þinghaldið. Þess vegna er það með miklum endemum að menn skuli ekki einu sinni hafa reynt að tala saman, reynt að setja upp sameiginlega dagskrá, reynt að gera drög að starfsáætlun. Er það ekki rétt, virðulegur forseti, að þingið er kallað saman, dagskrá er hent fram á vefinn einhliða síðdegis í gær og það er ekki svo mikið sem haft við að reyna að ræða hvernig þessu verði hagað næstu daga eða vikur? Reyndar var ekki heldur um það talað að boðað yrði til nefndarfunda á afbrigðilegum tíma eins og hinn frægi fundur iðnaðarnefndar í gær. Það var ekki einu sinni hægt að bíða eftir reglulegum fundartíma nefndarinnar í dag, daginn sem þingið kæmi þó saman. Nei, það var boðaður aukafundur í gær með skömmum fyrirvara einhvern tíma á helginni. Viðfangsefni hans er það að rífa úr nefndinni án nokkurrar frekari umræðu — samkomulag sem við þingmenn heyrum um í fjölmiðlum, þar á meðal nefndarmenn í iðnaðarnefnd, að einhverjir ráðherrar hafi náð um frumvarp sem er á forræði þingsins í miðri vinnslu í þingnefnd. Nefndin er rudd og aðrir þingmenn koma inn til að greiða atkvæði um afgreiðslu málsins úr nefnd sem ekki hafa tekið þátt í umfjöllun um málið. Þetta er sannleikurinn og svo getur hver túlkað fyrir sig hvað þarna er að gerast. Ef þetta er ekki ráðherraræði og að niðurlægja þingræðið þá veit ég ekki hvað það er.

Vandinn er auðvitað sá, frú forseti, að þinghaldið er í gíslingu ríkisstjórnarinnar. Það er bæði af hugmyndafræðilegum ástæðum því ríkisstjórn Steingríms — ríkisstjórn Halldórs Ásgrímssonar virðist trúa því að hér sitji ríkisstjórnarbundið þing. (Forsrh.: Þú varst í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar.) Já, það er rétt. Hún var miklu skárri en þessi. Og af einhverjum undarlegum ástæðum láta bæði þingnefndir og forusta þingsins bjóða sér þessi vinnubrögð og þau versna dag frá degi. Ríkisstjórnin sjálf er þannig á sig komin, eins og allir menn sjá, að þar ríkir algert stjórnleysi og algert uppnám og það sem gerist er eiginlega ævinlega niðurstaða af því að málum er olnbogað áfram með hrossakaupum. Ef einhver list er að ná hástigi í höndum þessarar ríkisstjórnar þá er það hin forna list hrossaviðskiptanna. Einn fyrir mig og einn fyrir þig.

Ég legg til, virðulegi forseti, að hlé verði gert á þessum fundi, boðað til þess fundar sem hefði átt að vera búið að halda með formönnum þingflokka og reynt að koma einhverju skikki á málið.