Störf iðnaðarnefndar, þinghaldið fram undan o.fl.

Þriðjudaginn 30. maí 2006, kl. 14:29:43 (8369)


132. löggjafarþing — 117. fundur,  30. maí 2006.

Störf iðnaðarnefndar.

[14:29]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Fundur þingflokksformanna var haldinn kl. eitt. Síðan hófst þingfundur kl. hálftvö og okkur hefur ekki gefist tóm til að boða þingflokka til fundar til að greina þeim frá því sem þar gerðist.

Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, hefur haft uppi ákveðnar söguskýringar sem mér finnst ástæða til að víkja að undir þessum dagskrárlið. Hún sagði að engar tillögur hefðu borist frá stjórnarandstöðunni um þinghaldið. Hið rétta er að við kvörtuðum yfir því að ekki skyldi haft samráð við forsætisnefnd þingsins eða formenn þingflokka í samræmi við þingskapalög eins og hv. þm. Jón Bjarnason hefur gert ágætlega grein fyrir. Þegar við spurðum hversu lengi þingfundur ætti að standa þá var ýmist sagt „fram að kvöldmat“ eða „fram á kvöld“ eða „til miðnættis“. Þess var getið að það væri hægt að stytta fundartímann ef við féllumst á að ræða ekki hin gagnrýnisverðu vinnubrögð undir þessum lið um stjórn fundarins. Ég sagði að ekki yrði komist hjá því að gera þau að umræðuefni.

En ég tek þetta aðeins upp núna, hæstv. forseti, vegna þess að formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins er uppi með rangfærslur um málflutning okkar á þessum fundi. Við höfum óskað eftir því að fyrir liggi áætlun um vikuna. Það er t.d. ekki vitað hvort efnt verður til fundar á laugardag. Jafnvel er talað um að svo verði. Það er spurt hvort efnt verði til kvöldfunda. Það er ekki vitað. Fyrst er sagt að vinnudagurinn verði látinn nægja en síðan er allt á reiki og að lokum er sagt: Við tökum bara einn dag í einu. Þetta er ástandið á Alþingi og hæstv. starfandi forseti þingsins á alla mína samúð. Ég er ekki að beina gagnrýnisorðum mínum að henni. Ég vil að það komi skýrt fram. Ég beini gagnrýni minni að ríkisstjórninni sem stýrir þessum málum og að stjórn þingsins fyrir að hafa ekki staðið betur að undirbúningi þessa fundar.